"Einkaneysla og fjárfesting eykst"

Í þessari spá er gert ráð fyrir því að einkaneysla og fjárfesting muni sem betur fer aukast.

Þetta minnir mig reyndar á þegar ég var í stærðfræði í Menntaskólanum við Sund. Þar var stærðfræðikennari sem heitir Sigmundur. Þegar hann var að skila einu skyndiprófinu þá fagnaði einn nemandinn og hrópaði: "Ég hef tvöfaldað einkunnina frá síðasta prófi"!

Sigmundur svaraði og sagði: "Tvisvar sinnum núll er áfram núll".


mbl.is Hagstofan hækkar hagvaxtarspá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Plankinn hjá ESB

Um helgina var ég í Brussel og þar sem ég var í gær; 2. júlí 2011, við höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB þá stóðst ég ekki mátið að plankast aðeins. Þetta er reyndar minn fyrsti og örugglega síðasti planki :-)

Plankinn hjá ESB

Ljósmyndarinn óskar eftir því að nafni hans sé ekki getið.

Þegar kona mín sá þessa mynd þá spurði hún hvort ég væri þarna að sýna hve þversum ég væri aðild Íslands að Evrópusambandinu. Við hjónin erum kannski ekki alveg sammála þegar að því kemur. Hún bætti svo við (vonandi í gríni) að þetta sýndi líka hvað ég væri alltaf tilbúinn að sjá flísina í auga ESB en sæi aldrei bjálkann (plankann) í auga mínu.

En hvað um það, Brussel er ágæt borg og helgarferð þangað fær mín bestu meðmæli.


mbl.is Þurfum ekki sérstaka undanþágu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig minnka hærri stýrivextir verðbólguþrýsting?

Verðbólga þessa dagana stafar fyrst og fremst af hærra innflutningsverði svo sem á eldsneyti og öðrum nauðsynjavörum sem við neyðumst til að flytja inn. Sérfræðingar Seðlabankans virðast telja að hærri stýrivextir þeirra vinni gegn verðbólguþrýstingnum.

Gott væri ef einhver þessara sérfræðinga lýsti því nákvæmlega hvernig hærri stýrivextir fari að því að minnka verðbólguþrýstinginn og hvernig stýrivextir hafi reynst Íslendingum til að stýra verðbólgu síðustu fjögur ár eða svo.


mbl.is Auknar líkur á vaxtahækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærstu sökudólgarnir!

Ég missti vinnuna í hruninu, eða í október 2008. Þá taldi ég mig strax sjá þrjá höfuðsökudólga hrunsins, en það voru þeir Jón Ásgeir, Sigurjón Landsbankastjóra og Geir Haarde. Síðar hef ég reyndar bætt Björgólfi Thor inn á þennan lista en auðvitað áttu talsvert fleiri sinn þátt í hruninu.

Jón Ásgeir tel ég fyrstan upp vegna brjálaðrar skuldsetningar í ýmsar mishæpnar fjárfestingar og meðferðar hans á fjármunum síðustu árin fyrir hrun. Sigurjón tel ég upp vegna Icesave sem hann svo glórulaust fagnaði sem tærri snilld þegar milljarðarnir runnu inn á hávaxtareikninga Landsbankans frá annars lítt varkárum Englendingum og Hollendingum.

Geir Haarde átti að mínum dómi stóra sök í hruninu. Það var hann sem var forsætisráðherrann og hafði verið fjármálaráðherra árin í aðdraganda hrunsins. Geir er hámenntaður hagfræðingur og treysti ég því best sem hann sagði um íslensk efnahagsmál, alveg að hruninu. Það mátti ekki skilja á honum að nein sérstök hætta væri yfirvofandi. Nei, hann vildi ekki gera neitt og virtist vona að þetta myndi reddast.

Aðrir ráðherrar í stjórn hans voru allir vitleysingar sem aldrei hefðu átt að verða ráðherrar. Það var og er mín skoðun.

Nú er sagt að eftir 2006 hafi verið of seint að bjarga þjóðarskútunni og það má vel vera rétt. En hvað hefði Geir þá átt að gera?

Jú, hann með alla sína hagfræðimenntun og þá aðstöðu sem hann hafði sem forsætisráðherra til að sjá allar hagstærðir Íslands hlaut að sjá að staðan var orðin grafalvarleg. Hann hefði því átt að vara þjóð sína við vandanum og segja henni að búa sig undir erfiða tíma. Hvetja fólk til að greiða niður sínar skuldir og gæta hófs í öllum fjárfestingum.

Þá segja einhverjir að bankarnir hefðu ekki þolað slíkar aðvaranir frá forsætisráðherra. Eins og ég nefndi áðan þá var talið of seint að bjarga landinu eftir 2006 og forsætisráðherrann hefði auðvitað átt að reyna að bjarga þjóð sinni frekar en bönkunum.


mbl.is Mun skjóta máli til Mannréttindadómstóls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er lífrænn landbúnaður sökudólgurinn?

Í frétt Reuters í dag er talið líklegt að það sé lífrænn landbúnaður sem sé sökudólgurinn í þessu E. coli fári sem hefur leikið íbúa norðurhluta Þýskalands illa að undanförnu. Lífrænn landbúnaður er sagður skapa kjöraðstæður fyrir hættulegar bakteríur.

Baunaspírur hafa verið þekktar fyrir áhættu á svona löguðu. Það vill svo til að yngri konur vilja frekar borða hráar baunaspírur en aðrir. Fjöldi sýktra í þessu kólígerlafári hefur verið mestur í hópi yngri kvenna.


mbl.is Kólígerlar ekki á baunaspírum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vextir eru eitt en verðtrygging annað

Það er auðvitað ágætt að Landsbankinn ætli að hjálpa þeim sem fengu lánað hjá bankanum. 20% af vöxtum er nokkur upphæð en það eru verðbæturnar sem hins vegar hafa farið með lánin upp úr öllu valdi. Ef ég skil þessa frétt rétt þá ætlar bankinn ekki að gefa neinn afslátt af verðbótunum.

Þeir sem tóku íbúðlán hjá bönkunum, t.d. 2004-2007, og höfðu einsett sér að fara varlega í fjármálum og fara eins hóflega í einu og öllu og mögulegt var, t.d. með því að nurla saman öllu því sem þeir mögulega áttu og gátu sett upp í kaupverð íbúðarinnar til að lánið þyrfti ekki að vera svo hátt... það eru þeir sem hvað verst hafa farið út úr hruninu.

Þeir þurfa að horfa á lánin sín fara í allt að 110% verðmats íbúðarinnar án þess að þeir fái neitt afskrifað. Þá hugsa þeir sér að hugsanlega hefðu þeir átt að leyfa sér smá óhóf þegar þeir fjárfestu í íbúðinni á sínum tíma, kannski eina utanlandsferð þó ekki annað.


mbl.is Endurgreiða hluta af vöxtum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Önnur viðbrögð hér en í Bandaríkjunum

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með fréttum af skýstrókum sem hafa leikið suðurríki Bandaríkjanna grátt að undanförnu. Þegar fréttamenn ræða við þá sem hafa lent illa í þessum veðurofsa þá talar það fólk oftast um að trúin hjálpi því og bænin. Í sjónvarpsfréttum NBC í gærkvöldi var því lýst sem kraftaverki að tvær heillegar Biblíur hefðu fundist í rústum þar.

Hjá okkur heyrir maður aldrei neinn nefna trú eða bænir þó allt sé í fári. Þó að niðamyrkur sé um annars hábjartan dag. Eru Íslendingar búnir að missa trúna eða vill það ekki ræða hana við aðra?


mbl.is Farið að rigna fyrir austan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættur að skilja!

Nú er ég hættur að skilja Eurovision. Þrjú síðustu ár hef ég alltaf náð að segja til um sigurlagið en ekki nú. Ég hafði nefnilega spáð Norðmönnum sigri núna með Þjóðverja í öðru sæti og Breta í því þriðja. Noregur komst ekki upp úr riðli kvöldsins og það finnst mér óskiljanlegt.

Íslandi reiknaði ég ekki með áfram en niðurstaðan fyrir okkur er frábær.


mbl.is „Þetta var stríðnin í Sjonna"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áttum við ekki að komast einna fyrst út úr kreppunni?

Hverjir voru það sem fullyrtu við hrunið að Íslendingar færu fyrstir í kreppu, en yrðu líka fyrstir til að komast uppúr kreppunni. Hvað skyldu þeir hafa verið að meina?
mbl.is Horfur einna dekkstar á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú birtir yfir landinu!

Fyrst eftir að forsetinn neitaði að skrifa undir Icesave III lögin sýndu skoðanakannanir að umtalsverður meirhluti þjóðarinnar myndi samþykkja samninginn. Síðan hafa vikurnar liðið og fólki gefist færi á að kynna sér samninginn. Lögin voru svo send inn á hvert heimili um daginn. Hræðsluáróður Já-sinna hefur gengið fram af fólki og nú virðist gefið að NEI verði sem betur fer niðurstaðan.

Nei-rökin eru líka langtum sterkari en Já-rökin svo heilbrigð skynsemi getur ekki sagt manni annað en að kjósa NEI!


mbl.is 57% ætla að segja nei
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband