Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Þráðlaus hleðsla í náttborðinu

Sem farsímaeigandi til margra ára þekki ég vandræðin við að hlaða batterí símans. Batterí símanna duga aðeins nokkra daga og þá þarf að setja þá í hleðslu. Hleðslutækin eru kannski ekki mjög stór en hafa kapal sem liggur í símann og auðvitað í veggrafmagn.

Um daginn keypti ég mér þráðlaust hleðslutæki í Hátækni á 12.995 kr. Hleðslutækið (DT-900) hleður með svokallaðri Qi tækni. Nokkrar símtegundir taka þessari hleðslu, t.a.m. nýir Nokia Lumia símar. Ég á sjálfur frábæran Lumia 920 síma.

Þar sem að hleðslutækið hleður símann þó að hann sé í nokkurra sentimetra fjarlægð þá ákvað ég að koma hleðslutækinu fyrir í náttborðinu. Hleðslan getur farið fram í gegn um borðplötu sé hún ekki þykkri en 5 mm. Ég byrjaði því á að taka borðplötuna af náttborðinu og snúa henni við. Ég gerði dæld í borðplötunu á þeim stað sem mér þykir gott að leggja símann frá mér á kvöldin.

Dældin komin

 

Dældin komin í borðplötuna svo þykktin sem eftir er sé ekki meiri en ca. 5 millimetrar. Á myndinni eru verkfærin sem notuð voru.

Hleðslutkinu komið fyrir

 

Síðan er sjálfu hleðslutækinu komið fyrir í dældinni og það fest þar. Á myndinni eru verkfærin sem notuð voru og skrúfur og spennur.

 

P1040715

 

Loks er borðplatan aftur sett á náttborðið. Þegar síminn er lagður nokkurn veginn yfir hleðslutækinu þá finnur síminn fyrir tækinu og hleðslan byrjar. Allt mjög snyrtilegt og frábært í alla staði. Mig langar til að nefna það hér að fyrir svefninn lækka ég hljóðtilkynningar tölvupóstsins svo hann trufli ekki nætursvefninn.

Hér er linkur þar sem þessari aðferð er vel lýst:

http://www.youtube.com/watch?v=xZo2pA0Qc9U


Ótrúlegt símasamband!

Um síðustu helgi fór ég til Svíþjóðar með dóttur minni til að heimsækja systurdóttur mína sem býr í Växjö. Dóttir mín varð eftir hjá henni og verður til mánaðamóta. Ég hef aldrei verið mikið fyrir Apple vörur en keypti samt Ipod touch og gaf dóttur minni. Í Växjö kostaði Ipodinn sem svarar um 29 þús. íslenskum krónum. Í þessum nýja Ipod þá er m.a. hægt að keyra Skype símaforritið. Dóttir mín er á þráðlausu neti systurdóttur minnar.

Eftir að ég kom heim þá höfum við getað verið í góðu myndsímasambandi við dóttur mína sem hefur til þess notað Ipod touch-inn.

Í gær þegar við hringdum til Svíþjóðar þá var systurdóttur mín í Skypesímtali við mömmu sína, systur mína, þar sem hún er stödd í Amman í Jórdaníu hjá annarri dóttur sinni sem þar býr.

Þær mæðgur voru með sitthvorn Ipadinn í myndsímtali. Dóttur mín fór og miðaði Ipodinum á Ipad systurdóttur minnar og gátum við því öll verið í þessu myndsímtali; systir mín í Jórdaníu, dóttir mín og frænka í Svíþjóð og við á Íslandi. Skype býður upp á frí símtöl, Skype notenda á milli hvar sem þeir eru.

Ég sem er búinn að vinna í tæknigeiranum síðan 1995 gat ekki annað en sagt: "Major breakthrough in modern science"!


Framburðarvél fyrir 25 tungumál

Hér er sniðug framburðarvél fyrir um 25 tungumál. Hér geta því þeir sem eru að læra erlend tungumál áttað sig á hvernig bera eigi fram hin og þessi orð. Þarna er einnig íslensk framburðarvél sem kallar sig Ragga (þó hún eigi erfitt með að bera það nafn sjálf fram). Á röddinni þekkir maður gamla sjónvarpsþulu. Smile

Windows 7 setur sölumet

Nýjasta Windows stýrikerfið; Windows 7 sem var gefið út þann 22. október síðastliðinn hefur farið gríðarvel af stað og sett sölumet hjá Microsoft. Það sem eftir var síðasta ársfjórðungs frá því það kom opinberlega út í fyrra seldi Microsoft 60 milljónir leyfa fyrir Windows 7. Samkvæmt mælingu hjá W3Counter þá hafði þetta stýrikerfi þegar í janúar verið sett upp hjá 9,11% tölvunotenda heimsins. Einu stýrikerfin sem eru útbreiddari en Windows 7 eru fyrirrennarar þess; Windows XP og Windows Vista. Önnur ágæt stýrikerfi svo sem Macintosh OS X og Linux veita Windows enga samkeppni.

Windows 7 þykir afar vel heppnað stýrikerfi og hefur það alls staðar fengið afbragðsdóma. Ýmsir nýir þættir þess ss. Libraries þykja mjög gagnlegir og vel heppnaðir. Marga fleiri nýja möguleika þessa stýrikerfis mætti upp telja sem gera þetta það svo vinsælt sem raun ber vitni. Microsoft á Íslandi er enn með mjög hagstæða gengisskráningu við Ísland og er því enn hægt að kaupa hér vörur frá Microsoft á mjög hagstæðu verði.

Nýr Firefox vafri

Í síðustu viku var gefinn út nýr Firefox vafri; útgáfa 3,6. Firefox vafrinn þykir hraðvirkur og góður og er vinsæll hjá mörgum. Þennan vafra má sækja hér;
www.firefox.com

Þetta er auglýsingafrasinn frá þeim sem kynna vafrann;
"Núna á íslensku, Firefox 3.6 er hraður, öruggur og mun betri en áður"

Internet Explorer er þrátt fyrir allt enn vinsælasti vafrinn á heimsvísu og er hann kominn upp í útgáfu 8,0. Hann má sækja hér;
www.microsoft.com/ie

Einhverjir hafa lent í því að Internet Explorer 8 vafrinn hafi verið að frjósa. Þetta er að öllum líkindum vegna aukahluta, t.d. Flash Player sem ekki er þá af nýjustu gerð. Hér má finna lausn við þessu vandamáli;
http://blogs.zdnet.com/Bott/?p=1694&tag=wrapper;col1

Lausnin er sem sagt;
1. Fjarlægja alla hluti áður uppsetts Flash spilara. Þetta er ekki hægt að gera í Control Panel heldur þarf að sækja forrit til þess hjá Adobe;
http://download.macromedia.com/pub/flashplayer/current/uninstall_flash_player.exe
Þarna er uninstall forritið sótt. Internet Explorer og öllum öðrum forritum lokað og uninstall forritið keyrt.

2. Internet Explorer sett afur á grunnstillingar. Internet Explorer ræst og farið þar inn í Tools|Internet Options og farið þar á Advanced flipann og þar valið Reset... undir Reset Internet Explorer Settings. Þetta afvirkjar allar Internet Explorer viðbætur en þær má virkja aftur síðar.

3. Nýr Flash spilari aftur settur upp. Nú þarf að endurræsa Internet Explorer og fara síðan á;
http://get.adobe.com/flashplayer/
Flash vill samtímis setja upp Google Toolbar en óhætt er að sleppa því og taka því hakið úr þeim reit. Loks er smellt á Agree and install now.
Frekar en að smella á gulu línuna sem kemur þá efst í glugganum til að samþykkja þetta niðurhal er betra að fara neðst í þessum glugga og smella þar á Click here to download og smella loks á Run.

4. Virkja aðrar uppsettar viðbætur við Internet Explorer. Þarna er þá farið í Tools|Internet Options og enn farið í Programs flipann og nú farið í Manage add-ons. Þarna eru þá viðkomandi viðbætur fundnar, ss. Skype eða annað og þær gerðar virkar aftur með því að hægri smella á þær og velja Enable.


Davíð heppni!

Á Facebook síðu Microsoft á Íslandi hefur undanfarna 13 daga verið hægt að taka þátt í happdrætti þar sem vinningurinn hefur verið Windows 7 Home Premium. Það hefur komið í hlut jólasveinanna að setja vinningana í skó þeirra sem hafa verið svo heppnir að vera dregnir út. Ég var svo heppinn að vera dreginn út fyrsta daginn af Stekkjarstaur og hljóta vinninginn. Stekkjarstaur sagði að ég hefði verið svo stilltur og duglegur Grin

Seljalandsfoss

Ég hef áður ritað um Windows 7 á blogginu mínu og nú tveimur mánuðum eftir útgáfu þessa stýrikerfis þá get ég fullyrt að það hefur staðið undir öllum mínum væntingum og gott betur. Það keyrir enn léttar en ég hafði ímyndað mér. Nýir þættir stýrikerfisins eru stöðugt að koma mér ánægjulega á óvart.

En aftur að vinningnum sem ég var svo ljónheppinn að hljóta. Það kom í ljós að alnafni minn hafði einnig tekið þátt í þessu happdrætti og erum við bara tveir alnafnarnir til á landinu. Við Páll faðir hans erum fjórmenningar. Ég veit ekkert um hversu lánsaman þessi alnafni minn telur sig vera en það fyrsta sem ég hugsaði var að ég hlyti þá að vera Davíð heppni! Svona til aðgreiningar J

Því það er ekki bara að ég vinni svona happdrætti heldur tel ég mig afar heppinn að öðru leiti. Ég á yndislega konu og frábær börn. Við búum á besta stað (í Lindahverfi í Kópavogi), höfum öll verið mjög heilsugóð, eigum frábæra ættingja og vini. Lífið leikur við mig.

Gleðileg jól.


Öryggisuppfærslur fyrir Windows

Að kvöldi annars þriðjudags í hverjum mánuði gefur Microsoft út öryggisuppfærslur fyrir Windows stýrikerfin. Fimm dögum áður má sjá á fréttasíðu Microsoft hvort og þá hvað þeir hyggjast láta frá sér margar öryggisuppfærslur næsta uppfærsludag.

images

Ef um mjög áríðandi öryggisuppfærslu er að ræða þá lætur Microsoft uppfærsluna strax frá sér þannig að þessir þriðjudagar eru ekki alveg heilagir.

Tilkynningarnar sem gefnar eru út nokkrum dögum fyrir útgáfuna segja lítið til um annað en fjölda þeirra og fyrir hvaða Windows útgáfu þær séu. Ef sagt væri nákvæmlega hvaða veikleika væri verið að bæta þá kynnu óprúttnir aðilar að ná að ráðast á veikleikann áður en öryggisuppfærslan berst tölvunotendanum.

Í fyrirtækjum þá er best að öryggisuppfærslur séu aðeins sóttar einu sinni til Microsoft og þá vistaðar á netþjóni fyrirtækisins og þeim deilt þaðan út til útstöðva.

Í dag, sem er annar þriðjudagur mánaðarins mun óvenju mikill fjöldi af öryggisuppfærslum koma frá Microsoft, eða a.m.k. 13 talsins. Ein þeirra, sem sögð er krítísk, er fyrir nýja stýrikerfið Windows 7.

Windows stýrikerfin geta sjálf fylgst með ef uppfærslur eru í boði og þá sótt þær sjálf og keyrt sig inn. Tölvur í fyrirtækjum ættu þó ekki að vera stilltar þannig að þær geti sjálfar sótt uppfærslurnar, til að spara bandbreiddina eins og áður sagði.

Fyrir nokkrum árum gaf Microsoft í eitt skiptið út gallaða uppfærslu svo að margir kerfisstjórar eru enn varkárir með að sækja þessar uppfærslur strax. Microsoft vandar sig orðið mjög vel að gera allar hugsanlegar prófanir á uppfærslunum áður en þeir láta þær frá sér þannig að ég mæli með því að uppfærslurnar séu sóttar eins fljótt og mögulegt er og keyrðar inn til að halda stýrikerfunum fulluppfærðum.


Bing - Ný leitarsíða frá Microsoft

Þann 1. júní sl. kynnti Microsoft nýja leitarsíðu sem þeir segja að geti keppt við hina vinsælu Google leitarsíðu. Þessari nýju leitarsíðu hafa þeir gefið nafnið Bing og hafa gagnrýnendur tekið henni vel.

Bing.com

Gagnrýnendur hafa sagt þessa leitarsíðu oft gefa markvissari svör en t.d. Google gerir. Þannig gefi Bing betri svör við flóknari spurningum. Eins og Bing skilji spurninguna betur. En munur getur líka verið á einfaldari spurningum. Ef Google fær t.d. spurningu um hver var 23. forseti Bandaríkjanna þá kemur svar upp á um 8 milljón síður! Við slíkri spurningu er þó aðeins eitt svar og þá væntanlega óþarfi að benda manni á 8 milljón síður til aflestrar.

Hér er hægt að slá inn leitarstreng þar sem bæði Bing og Google leitarsíðurnar svara hvor fyrir sig og er þá hægt að leggja mat á niðurstöðurnar.

Slóðin er þá eftirfarandi;
http://www.blackdog.ie/google-bing/
og þá er hægt að slá inn leitarstreng sem bæði Google og Bing svara. Prófið t.d. að slá inn nöfn ykkar og sjáið hvaða niðurstöður birtast.

Ef þið viljið síðan gera Bing að sjálfgefinni leitarsíðu, hvort sem þið eruð með Internet Explorer 7 eða 8, þá getið þið farið á þessa síðu;
http://www.ieaddons.com/en/createsearch.aspx
og sett þessa línu inn í URL: línuna: http://www.bing.com/search?q=TEST
og sett nafnið Bing inn í Name: línuna. Ath. að haka þá við að síðan verði stjálfgefin.

Þessa dagana er Microsoft að gefa út fleiri áhugaverða hluti. Þannig kynna þeir ókeypis veiruvarnarforrit væntanlega á næstunni. Þetta er kannski heldur seint hjá þeim því veirusmit eru nánast hætt að gerast á PC tölvum.

Þá verður stór útgáfudagur hjá Microsoft þann 22. október þegar þeir gefa út tvö ný stýrikerfi; Windows 7 og þjóninn Windows Server 2008 R2. Hvorutveggja má núna niðurhala frítt frá Microsoft í svokallaðri RC útgáfu. Þessi fría RC útgáfa (Release Candidate) verður nothæf fram á næsta sumar. Windows Server 2008 R2 er aðeins 64 bita en Windows 7 er bæði 32 bita og 64 bita.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband