Mitt land - mín þjóð

Hef undanfarna viku verið í vinnuferð þar sem ég hef farið um allan vesturhluta landsins, þ.e. allt Snæfellsnes, alla Vestfirði og Norðvesturland allt að Hofsósi. Allir þéttbýlisstaðir á þessu svæði voru heimsóttir, sá fámennasti var Reykhólar (sem er syðst á Vestfjörðum) og sá fjölmennasti var Ísafjörður. Þetta vikulanga ferðalag hefur í einu orði sagt verið stórkostlegt. Ég, borgarbarnið, hef svo sem farið áður til flestra þessara staða en það eykur ánægju mína að fara svona ferð hugsandi að þetta sé mitt land og að þar búi mín þjóð. Þetta get ég sagt með sama rétti og sérhver hinna 320 þúsund Íslendinganna. Þetta er okkar land – okkar þjóð. Alls staðar voru móttökur hlýjar. Fólk var hvarvetna jákvætt og glaðlynt.

Nokkur orð um Vestfirði: Fegurð Vestfjarða er mikil. Sagt er að vegakerfi þeirra sé ekki gott og get ég vottað um það. Vegurinn yfir Dynjandi og Hrafnseyrarheiði er sjálfsagt einhver sá versti á landinu. Vegalengdir á Vestfjörðum eru gríðarmiklar. Svo miklar að eftir að hafa ekið stóra Vestfjarðahringinn þá finnst manni vegalengdin milli Reykjavíkur og Kirkjubæjarklausturs vera bara smá spotti. Ný glæsileg brú yfir Mjóafjörð er þó mikil bót fyrir Vestfirðinga.

Nokkur orð um gististaði: Gisti m.a. á Hótel Bíldudal sem er mjög ódýrt hótel sem er í gömlu húsi. Gef ekki mikið fyrir það. Gisti á Hótel Ísafirði (http://www.hotelisafjordur.is/) en það er fyrsta flokks hótel. Á hótelinu er veitingastaðurinn Við Pollinn og þar borðaði ég nýveidda hnýsu og drakk með rauðvínsglas. Á meðan ég snæddi þennan rétt gat ég horft út á pollinn. Þvílík alsæla get ég sagt ykkur. Þau sem þjónustuðu gesti á hótelinu þetta kvöld voru þau Arndís í afgreiðslunni og Smári sem bar fram þennan veislumat. Vona að ég muni nöfn þeirra rétt.

Já, það er ekki bara fegurð landsins sem veitir manni ánægju heldur líka að kynnast góðu starfi eins og hjá þeim á Hótel Ísafirði. Loks gisti ég á Gauksmýri í Vestur-Húnavatnssýslu. Á umliðnum árum hef ég gist á þónokkrum bændagistingum víðs vegar um landið. Íslensk bændagisting er alltaf snyrtileg og alls staðar leggur fólk sig fram við að veita manni góða gistingu. Mitt mat er þó að gistingin á Gauksmýri beri af. Sjá http://www.gauksmyri.is/. Bændur á Gauksmýri eru hjónin Jóhann og Sigríður og reka þau hestamiðstöð á bænum. Snyrtimennska er mjög mikil og allur aðbúnaður og þjónusta fyrir gesti er 100%. Verðið er mjög sanngjarnt. Gauksmýri er umhverfisvottaður staður. Yfir sumartímann er þarna boðið upp á frábæran grillaðan kvöldmat.

Þeir staðir sem ég heimsótti í þessari vinnuferð minni sem ég hef aldrei heimsótt áður voru Reykhólar, Súgandi og Bolungarvík. Ferðin til Súganda var hálfgerð pílagrímaferð fyrir mig. Ég kynntist nefnilega stúlku frá Súganda fyrir bráðum tuttugu árum síðan. Móðir þessarar stúlku var kunn í sinni sveit fyrir að semja og syngja lög um sveitina sína og fólkið. Það sem ég fékk að heyra af því fannst mér nokkuð tregafullt en fallegt. Þessa móður, sem heitir Inga, hef ég reyndar aldrei hitt, en ég samdi sjálfur kvæði um dóttur hennar sem ég kynntist í ofur-stuttan tíma. Hér eru til gamans nokkur erindi úr því kvæði:

Kann dimmu í dagsljós að breyta,
og dásamlegt er hennar tal.
Hún alltaf kann orðum að beita,
ó, ef ætti ég núna það val.
Er hún sýnir mér brosið sitt bjarta
þá bráðnar mitt sækalda hjarta.

Hún ber ilman angandi rósa,
já, eitthvað hún hefur við sig.
Og vel má hún kratana kjósa,
það kemur ekki mál við mig.
En hver getur lifað með ljóni?
Leynast þeir menn hér á Fróni?

Bestan hún telur sinn bróður
og bjarma af föðurnum sér.
Ann líka mjög sinni móður
og metur hvað heppin hún er.
Þau minnast við leik sinna laga
ljúfsárra horfinna daga.

Með trega þar tónarnir flæða,
það titrar hvert blóm inn um fjörð.
Fólkið minnist ei fegurri kvæða,
tárin falla á kyrrláta jörð.
Á fjörðunum fáir þess njóta
að finna þar rós milli grjóta.

 

Ég rifjaði þetta kvæði upp í huganum þegar ég fyrir helgi ók Súgandafjörð fyrsta sinni og fannst mér hafa tekist nokkuð vel til. Súgandi, eða Suðureyri eins og bærinn heitir víst, finnst mér heldur vera að drabbast niður. Það finnst mér miður því nú eru komnar þarna góðar samgöngur með Vestfjarðagöngunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband