Frábær frammistaða hjá hinu opinbera
22.1.2010 | 16:39
Ég er með svokallaða greiðsluþjónustu í bankanum mínum og fer því sjaldan inn á netbankann minn. Fór þó þar inn í morgun og sá mér til nokkurrar undrunar ógreidda skuld við ríkið, þ.e. Ríkissjóðstekjur, innheimta upp á heilar tuttugu og fjórar krónur. Hugsanlega er þetta ógreiddur skattur. Gjalddagi fyrir þessar 24 krónur var þann 7. janúar sl., eða fyrir 15 dögum síðan.
Ég dreif mig því í að greiða þessa upphæð en þá var komin rosaleg upphæð ofan á þessar 24 krónur sem heitir Vextir og kostnaður upp á 4.500 krónur! Upphæðin hafði því nærri tvöhundruðfaldast!
Ég þarf að skammast í bankanum mínum vegna þessa reiknings og væntanlega mun ég kanna það hjá ríkinu í hverju þessi mikli kostnaður liggur. Ekki hefur verið gerð nein innheimta í það minnsta.
Svona trakteringar eru auðvitað leiðinlegar fyrir þá sem vilja alltaf vera skilvísir en samt legg ég til að sá aðili hjá hinu opinbera sem setur svona reikning á þá sem ekki borga á gjalddaga fái fálkaorðuna fyrir góð störf í þágu hins opinbera.
- - -
Viðbót 25. janúar:
Í morgun talaði ég við starfsmenn hjá innheimtu ríkissjóðs og fékk skýringu á ofangreindu máli. 24 krónurnar eru þriðja og síðasta greiðsla útvarpsgjaldsins. 4.500 krónurnar er vegna endurútreiknings ríkisskattsjóra á vaxtabótum. Það að sú upphæð skyldi birtast skyndilega þegar ég greiddi 24 krónurnar og það án nokkurra skýringa sögðu þeir vera klaufaskap hjá tölvukerfi RB. En hvað um það, málið er þá loks orðið ljóst og allir sáttir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.