Loksins eitthvað jákvætt til að segja frá
8.6.2009 | 00:41
Á föstudaginn voru skólaslit í Lindaskóla í Kópavogi og við það tækifæri var haldin vorhátíð skólans auk leikskólanna tveggja í Lindahverfi. Vorhátíðin tókst mjög vel og mátti sjá mikla gleði af hverju andliti.
Eiginkona mín var í undirbúningsnefnd þessarar hátíðar en komst ekki á síðasta undirbúningfundinn á fimmtudaginn vegna anna annarsstaðar og hljóp ég þá í skarðið fyrir hana. Hún var búin að segja mér að góð stjórn væri á undirbúningnum og reyndist það vera hverju orði sannara. Sú sem stýrði undirbúningsnefndinni heitir Gígja og kom frá foreldrafélagi leikskólans Núps. Hún hefur ótvíræða leiðtogahæfileika svo maður hefur varla séð annað eins. Hún hafði skýra mynd af verkefninu og mikla skipulagshæfileika. Var hvetjandi og úrræðagóð. Svo veitti hún hrós þegar við átti þannig að öll verk sem sinna þurfti voru unnin af gleði og ánægju.
Einnig langar mig hér að minnast á húsvörð Lindaskóla sem heitir Jóhannes. Það var sérstaklega ánægjulegt að leita til hans um lausn nokkurra þátta sem til féllu. Á fimmtudagskvöldið var útskriftarhátíð 10. bekkjar sem Jóhannes sá um að hluta. Þrátt fyrir að hann væri önnum kafinn þetta kvöld þá tók hann óskum okkar í undirbúningsnefndinni af mikilli hjálpsemi og ánægju. Ég veitti því athygli að nokkrir 10. bekkingar föðmuðu Jóhannes að sér að skilnaði og verð ég að segja að öðruvísi voru húsverðir þeirra grunnskóla sem ég gekk í. Þeir voru frekar svona úrillir feitir karlar með þykkar lyklakyppur sem áttu lítil samskipti við börnin önnur en til að skamma þau. Þegar húsverðir eru eins og Jóhannes, sem verða vinir barnanna, þá er það örugglega til þess að öll umgengni þeirra verður mjög góð.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.