Ísland fremst!
5.10.2009 | 12:14
Erlendir sérfræðingar sem komið hafa til Íslands í kjölfar bankahrunsins hafa nefnt að Íslendingar eigi mikla framtíðarmöguleika þar sem landið býr yfir vel menntaðri þjóð og traustan innri strúktúr.
Nefnt hefur verið að Íslendingar ættu að einbeita sér að málefnum sem þeir geti haft yfirburða þekkingu og kunnáttu á. Þannig hafa þeir bent á að Finnar hafi einbeitt sér að farsímum (Nokia) og náð þannig mikilli velgengni.
Það eru til málaflokkkar sem við gætum skarað fram úr á heimsmælikvarða og ættum við því að einbeita okkur að þeim, frekar en að álbræðslum eða einhverju slíku sem skila þjóðinni ekki nægjanlegum arði þegar allt er tekið með í reikninginn (umhverfisspjöll og fleira).
Ég veit ekki hversu framarlega Hollendingar eru í vindmyllugerð, en einhvern veginn, þá eru þeir nátengdir vindmyllum í sögunni og vitund annarra þjóða um þá. Þetta geta Hollendingar nýtt sér fyrir smíði vindmylla og tækni hvort sem er til raforkuframleiðslu eða annars, ef aðrar þjóðir leita til þeirra eftir aðstoð.
Mig langar til að nefna hér tvo málaflokka sem Ísland gæti orðið leiðandi í fyrir heimsbyggðina. Annars vegar er það notkun jarðvarma hvort heldur til húshitunar eða orkuframleiðslu, en Íslendingar standa mjög framarlega í því. Við höfum hitað hús okkar um langan aldur með jarðvarma og höfum náð góðri þekkingu og reynslu á raforkuframleiðslu með jarðvarma. Þessa tækni er þegar farið að flytja út, t.d. til Filipseyja og fleiri ríkja, en nýjasta bortækni gerir fleiri og fleiri þjóðum möguleika á að nýta sér þessa leið. Þannig telja Bandaríkjamenn sig geta nú nýtt sér þessa tækni í flestum ríkjum Bandaríkjanna.
Þarna ættum við að bjóða fram aðstoð okkar.
Annað sem við gætum nýtt mikla reynslu okkar og þekkingu í, er í jarðvegsvernd. Við eigum Landgræðslu ríkisins sem er yfir 100 ára gömul stofnun. Landgræðslan á sér systurstofnanir erlendis en enga með viðlíka reynslu. Ein höfuð umhverfisógn heimsins er jarðvegseyðing. Á þessu sviði gætum við Íslendingar orðið leiðandi í jarðvegsvernd. Jarðvegsvernd hefur marga kosti fyrir þjóðir sem eiga í baráttu við jarðvegseyðingu. Einn af kostunum er að snúa við hnattrænni hlýnum með landgræðslu og skógrækt.
Í þessum tveimur þáttum sem ég hef hér nefnt ættum við að marka okkur stöðu sem aðrar þjóðir tækju eftir.
Ísland fremst í nýtingu jarðvarma!Ísland fremst í jarðvegsvernd!
Hvorutveggja eru brýn umhverfismál 21. aldarinnar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.