Davíð heppni!
24.12.2009 | 09:51
Á Facebook síðu Microsoft á Íslandi hefur undanfarna 13 daga verið hægt að taka þátt í happdrætti þar sem vinningurinn hefur verið Windows 7 Home Premium. Það hefur komið í hlut jólasveinanna að setja vinningana í skó þeirra sem hafa verið svo heppnir að vera dregnir út. Ég var svo heppinn að vera dreginn út fyrsta daginn af Stekkjarstaur og hljóta vinninginn. Stekkjarstaur sagði að ég hefði verið svo stilltur og duglegur
Ég hef áður ritað um Windows 7 á blogginu mínu og nú tveimur mánuðum eftir útgáfu þessa stýrikerfis þá get ég fullyrt að það hefur staðið undir öllum mínum væntingum og gott betur. Það keyrir enn léttar en ég hafði ímyndað mér. Nýir þættir stýrikerfisins eru stöðugt að koma mér ánægjulega á óvart.
En aftur að vinningnum sem ég var svo ljónheppinn að hljóta. Það kom í ljós að alnafni minn hafði einnig tekið þátt í þessu happdrætti og erum við bara tveir alnafnarnir til á landinu. Við Páll faðir hans erum fjórmenningar. Ég veit ekkert um hversu lánsaman þessi alnafni minn telur sig vera en það fyrsta sem ég hugsaði var að ég hlyti þá að vera Davíð heppni! Svona til aðgreiningar J
Því það er ekki bara að ég vinni svona happdrætti heldur tel ég mig afar heppinn að öðru leiti. Ég á yndislega konu og frábær börn. Við búum á besta stað (í Lindahverfi í Kópavogi), höfum öll verið mjög heilsugóð, eigum frábæra ættingja og vini. Lífið leikur við mig.
Gleðileg jól.
Flokkur: Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 12:24 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.