Það eru ekki allir svindlarar

Að undanförnu hefur  talsvert verið rætt í bloggheimum um verslunarhætti sem eigendur gjafakorta hafa orðið fyrir hjá verslunum sem farið hafa í þrot og komist aftur af stað með nýjum kennitölum eða einhverju svoleiðis fiffi.

Eftir þessa endurreisn hafa þessi fyrirtæki ekki vilja viðurkenna gjafakort sem þau segja að þeim séu óviðkomandi þar sem þau hafi verið gefin út á nafni verslunarinnar áður en hún fór í þrot.

Þetta er mjög slæmt fyrir orðspor fyrirtækjanna þar sem eigendur slíkra gjafakorta er yfirleitt ungt fólk sem ekki fyrirgefur svona móttökur.

En það sem mig langaði að skrifa hér um er gott dæmi frá í síðustu viku af viðskiptum mínum við annað fyrirtæki sem er Opin kerfi. Ég hafði keypt hjá þeim HP prentara fyrir liðlega ári síðan. Þessi prentari fór fljótlega að haga sér eitthvað undarlega og vildi helst ekki prenta neitt.

Ég hef haft góða reynslu af HP vörum og vildi eiginlega ekki viðurkenna að prentari frá þeim gæti verið bilaður. En nú fyrir jólin bráðvantaði mig að prenta út nokkrar myndir svo ég fór í Opin kerfi með prentarann til viðgerðar.

Þegar ég fór síðan til að sækja prentarann úr viðgerðinni þá var mér sagt að prentarinn hefði verið það illa bilaður að ég fengi nýjan frá þeim í staðinn mér að kostnaðarlausu.

c01041149

Nýi prentarinn er talsvert fullkomnari en sá fyrri og þannig nú með skjá til stýringar, netkort og port fyrir minnislykla.

Hér er mér því óhætt að mæla með viðskiptum við Opin kerfi.


Alls ekki hreindýr á Reykjanes!

Í einhverju blaðinu er verið að bera upp hugmynd um að fá aftur hreindýr á Reykjanes (Landnám Ingólfs). Hreindýr voru þar síðast fyrir um 80 árum.

hreindyr

Þetta má ekki verða. Einu sinni var skógur á Reykjanesi. Það er fyrst á síðustu árum sem Reykjanes fær sæmilegan frið fyrir grasbítum. Þó að hreindýr séu engir sérstakir grasbítar þá fer viðkvæmur gróður ekki vel af þeirra ágangi.

Gróðri tekur svo langtum skemmri tíma að eyða en að fá hann aftur. Líklega mun það taka Reykjanesið heila öld að jafna sig.

Að auki má nefna að venjulegar girðingar halda hreindýrum illa (eins og Austfirðingar þekkja) og þau myndu skapa hættu fyrir Reykjanesbrautina.

Gróður og jarðvegur er mun viðkvæmari á eldfjallasvæðum landsins en t.d. á Austurlandi svo ég endurtek að þetta má ekki verða.


Hvað ef þorskurinn sýkist?

Nógu slæmt er að síldin hafi orðið fyrir þessari sýkingu. Hvað ef þorskurinn fengi þessa eða svipaða sýkingu? Þá yrði algjörlega útséð með að við gætum nokkurn tíma greitt risalánin sem þjóðfélagið er að taka á sig.

Ég veit að maður má ekki vera með neina svartsýni, en gott væri ef ráðamenn gerðu ráð fyrir hugsanlegum áföllum.


mbl.is Afföll vegna sýkingar samsvara heilli vertíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þarf til afsagnar?

Féttir síðustu vikna hafa verið óskaplegar. Hver dæmalaus frétt úr heimi efnahagsmála hefur rekið aðra og virðist sem engin lát ætli að verða á.

Í öðrum löndum hefðu ráðherrar sagt af sér eftir marga þessara atburða sem yfir okkur hafa gengið.

Mér þætti fróðlegt að vita hvaða skilning nokkrir ráðherranna, t.d. Geir Haarde, Björgvin G. Sigurðsson, Árni M. Mathiesen, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hafi á ráðherraábyrgð og eftir hvers konar afglöp/brot/vanhæfni í starfi þeir telji að ráðherrar þurfi að segja af sér.

Ég þykist vita að ráðherrarnir lesi ekki þetta blog, a.m.k. örugglega ekki Björgvin, svo ef einhver sem þekkir þetta fólk les þetta, þá mættu þeir spyrja ráðherrana um þetta efni.

Svipaða spurningu mætti leggja fyrir ýmsa aðra, eins og bankamenn og formenn verkalýðsfélaga og lífeyrissjóða.


Ekki auðvelt að hætta viðskiptum við bankann

Eins og þúsundir annara þá er ég með verðtryggt íbúðalán. Síðasta árið hafa verðbætur hækkað lánið rosalega. Fyrir nokkrum vikum síðan talaði félagsmálaráðherra um að nú væri hægt að flytja lánið frá bankanum til Íbúðalánasjóðs.

Ég spurði þjónustufulltrúa minn í bankanum um þennan flutning en hann sagði að ég gæti ekki ákveðið neitt slíkt. Það væri aðeins bankinn sem gæti ákveðið slíkt og það stæði ekki til.

Í smáa letri íbúðalánasamningsins segir að meðan ég sé bankanum tryggur og sé með launareikning og kort hjá honum þá verði vextir á láninu áfram þeir sem ég gerði samkomulag við þá um, annars yrðu þeir hækkaðir.

Það er undan þessu ákvæði sem ég vildi sleppa og því hélt ég að þarna gæti ég átt þann leik í stöðunni að flytja lánið yfir til Íbúðalánasjóðs. En þetta er því miður ekki hægt.


Þetta fólk vil ég á Alþingi nýs Íslands.

Við þyrftum að kjósa í vor og þá væri óskandi að öllum núverandi þingheimi yrði skipt út. Farið hefur fé betra!

En hverja viljum við sjá á þingi í staðinn? Hér kem ég með fáein nöfn sem ég ber fullt traust til uppbyggingarstarfa á hinu nýja Íslandi.

-          Hanna Birna Kristjánsdóttir

-          Gunnar Axel Axelsson

-          Halla Tómasdóttir

-          Jóhann Ingi Gunnarsson

-          Þór Sigfússon

-          Guðmundur Gunnarsson

-          Margrét Pála Ólafsdóttir

Þetta fólk er allt þjóðþekkt og ég gæti bætt við nokkrum á þennan lista sem er ekki þjóðþekkt en læt það vera nú.

Þetta fólk er allt skynsamt og vel að sér. Hugsanlega hefur það ekki áhuga á þingstarfi en þetta er samt fólk sem ég gæti kosið.


Frábær Madonnusýning á Broadway

Um síðustu helgi, 22. nóvember,  fór ég ásamt nokkrum skyldmennum á Broadway  í jólahlaðborð og að sjá Madonnusýningu Jóhönnu Guðrúnar og hennar sveitar. Konan mín hafði farið í haust með saumaklúbbi sínum til London og sá þar Madonnu sjálfa á Wembley. Mér þótti það nokkuð mikið svindl enda var það miklu frekar ég sem hafði haft gaman af Madonnu. Konan mín meira svona fyrir pönkið ef satt skal segja. En hér voru því komnar mínar sárabætur.

Madonna_Live_8_-_1

Sýnigin kom mjög á óvart þar sem allt heppnaðist fullkomlega hjá þeim í tæplega tveggja tíma sýningu.

Fyrirfram hefði mér þótt Jóhanna Guðrún ekki líkleg til að hafa kraft í að syngja Madonnulögin en það var öðru nær.  Hún söng hvern Madonnusmellinn á eftir öðrum með krafti og þokka. Þannig söng hún Papa Don‘t Preach frábærlega svo dæmi sé tekið.

Sýningin naut þriggja mjög góðra bakraddasöngvara sem sýndu virkilega hvað í þeim bjó í þeim lögum sem þær sungu einar, eins og t.d. í Perfect Stranger. Danshópurinn í sýningunni steig hvergi feilspor og síðast en ekki síst verður að nefna hljómsveitina sem átti afbragðsleik.

Í þetta stórri og langri sýningu var svo margt sem hefði getað farið úrskeiðis en það gerðist aldrei. T.d. söngur Jóhönnu og bakraddasöngvaranna, hljóðfæraleikurinn, dansinn og myndasýningar á fjórum stórum sýningartjöldum í Broadway. Sýningin tókst óaðfinnanlega og fær hér mín bestu meðmæli. Takk fyrir mig.


Til hamingju Ísland!

Nú eru liðin 200 ár frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar. Það var ótrúlega miklu markverðu sem hann kom í verk á þeim 37 árum sem hann lifði. En skyldi hann nokkurntíma hafa gert sér grein fyrir því hvað hann átti eftir að hafa djúpstæð áhrif á þá Íslendinga sem á eftir komu?

Í upphafslínu Hulduljóða eftir Jónas segir hann "Skáld er ég ei en huldukonan kallar". Þetta var ekki mikið sjálfshól sem hann hefði svo vel getað leyft sér sem mesta ljóðskáld þjóðarinnar. Í öðru kvæði sem hann semur undir lok ævi sinnar segir hann "Veit ég af stuttri stundarbið/stefin mín engir finna".

Mikið held ég að hann hefði glaðst hefði hann upplifað það sem nafn hans hefur skilað í hugum þeirra sem á eftir komu. Má þar nefna Atla Heimi, Pál Valsson, Megas og fleiri og fleiri.

 Nú segi ég eins og Silvía: Til hamingju Ísland!


Sunnlendingar heppnir

Einhverra hluta vegna hafa Sunnlendingar lengi verið óvenju óheppnir með frambjóðendur á listum til Alþingiskjörs. En nú eru þeir sérstaklega heppnir í kosningunum í vor þar sem þeim gefst kostur á að strika ákveðið nafn út af lista Sjálfstæðismanna þar. Ég vil því hvetja alla Sunnlendinga til að mæta á kjörstað til að strika þetta ákveðna nafn út.

Nútíma þrælahaldarar

Stimpilklukkur eru miklir þrælahaldarar. Þeim er nákvæmlega sama hvort verið sé að vinna eitthvað af viti eða vinnutímanum sé eytt í einhverja gagnleysu. Bara að starfsmaðurinn sé mættur á vinnustaðinn.

Eðlilegra væri að atvinnuveitendur réðu starfsfólk til að gegna ákveðnu hlutverki og greiddi því laun eftir því hversu vel það stæði sig í að sinna því hlutverki. Þessi háttur er sjálfsagt ekki einfaldur hjá hinu opinbera þar sem oft á tíðum virðist vera nánast ómögulegt að segja upp slæmu starfsfólki.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband