Færsluflokkur: Dægurmál
Álög
22.11.2010 | 20:59
Ef frá er talið er ég missti föður minn níu ára gamall þá tel ég mig hafa lifað mjög gæfusömu lífi. Á frábæra fjölskyldu, eiginkonu og tvö stórkostleg börn.
Á unglingsárum gerðist ég nokkuð hjátrúarfullur. Trúði því að ákveðnir atburðir gætu leitt til góðs og aðrir atburðir á móti til tjóns. Með aldrinum hef ég að mestu gengið af þessari hjátrú. Talan 13 er t.a.m. happatalan mín. Það er auðvitað ákveðin hjátrú að segja þetta.
Nokkrir atburðir hafa verið mér illskiljanlegir. Einu sinni heimsótti ég Þingvelli og fór þar í Valhöll. Daginn eftir kviknaði í Valhöll og hún brann til ösku. Svo var Reykjavíkurborg með opið hús í Höfða og ég fór og skoðaði Höfða fyrsta sinni. Daginn eftir kviknaði í Höfða en sem betur fer tókst slökkviliðinu með snarræði að lágmarka það tjón. Fljótlega eftir opnun Landeyjahafnar skrifaði ég á blogginu að gerð hafnarinnar hefði tekist einstaklega vel. Strax þar á eftir byrjuðu vandræðin og hefur Herjólfi síðan oft verið siglt til Þorlákshafnar. Hmm...
Kannski að við þetta blogg breytist þessi álög.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Landið brennur!
30.10.2010 | 13:36
Jón Ásgeir, Björgólfur Thor, Sigurjón fyrrum bankastjóri og nokkrir fleiri eru brennuvargarnir sem kveiktu í landinu. Landið hefur staðið í björtu báli síðustu tvö-þrjú ár.
Það furðulega er að ríkisstjórnin gerir ekkert þjóðinni til bjargar. Hún virðist gjörsamlega heyrnarlaus á hjálparbeiðni þjóðarinnar í neyð hennar. Stór hluti millistéttarinnar hefur orðið fyrir óskaplegri eignaupptöku. Þúsundir hafa misst atvinnu. Best menntaða og efnilegasta fólkið flýr landið.
Meðan landið brennur er milljörðum sóað í byggingu tónlistarhúss, aðlögunarferli við ESB og afskriftir hjá sjálfum brennuvörgunum. Ríkisstjórnin hefur enda þurft að stórhækka skatta til að borga alla sóunina. Atvinnuuppbygging er hverfandi. Eina sem ríkisstjórnin gerir er aðeins til að brjóta og eyðileggja. Það verður ekki bætt þegar fólk hefur flúið land eða þegar byggðir hafa lagst af eins og nú stefnir víða í.
Eins og ég hef áður bent á verður nýtt fólk að koma að stjórn landsins til að bjarga því sem bjargað verður. Núverandi stjórn gerir ekki annað en að brjóta og eyðileggja.
Fleiri sækja um greiðsluaðlögun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Thriller á Lækjartorgi á Menningarnótt
22.8.2010 | 14:04
Á fjórða tímanum í gær tók hópur sig saman og dansaði við lagið Thriller á Lækjartorgi. Þó þarna væri nokkuð hvasst þá heppnaðist þetta vel. Þetta var ekki á dagskrá Menningarnætur heldur var þarna hópur sem hafði dansað þetta áður í afmæli eins úr hópnum og ákvað að vera með þennan gjörning þarna til gamans.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Snúum við blaðinu
12.7.2010 | 15:34
Eftir hrunið þarf almenningur að hugsa vandlega hvernig hann eyðir hverri krónu sem hann á. Ríkið hefði mátt gera það líka. Óþolandi er að þurfa að horfa upp á risastóra útgjaldaliði ríkisins (okkar almennings) halda áfram á fullu eins og enn sé árið 2007. Tökum dæmi:
Hátæknisjúkrahúsið Auðvitað er ágætt að fá nýtt sjúkrahús en það liggur bara alls ekki svo mikið á því. Svo er spurning um staðsetninguna. Þetta mætti bíða segi ég. Hugsa dæmið til enda.
Tónlistarhúsið Harpa Þetta hefði átt að stoppa strax í hruninu. Við höfum alls ekki efni á þessu núna. Það eina sem hefði átt að gera var að ganga frá því sem upp var komið við hrunið þannig að það yrði fyrir sem minnstu tjóni þangað til að betur áraði hjá okkur. Ég held að þetta dæmi hafa aldrei verið hugsað til enda af neinu raunsæi.
Samgöngumiðstöðin í Vatnsmýri Þetta rugl er ekki of seint að stöðva og það verður að stöðva það strax.
Nú þarf að snúa við blaðinu. Fara að gera vel það sem við gerum, annað en þessa vitleysu. Auðvitað eru til góð verk sem unnin hafa verið eins og nýja Landeyjahöfnin. Það er gott verk sem strax mun skila ávinningi. Við mættum leggja meira áherslu á viðhaldi á því sem við eigum. Fara strax í þjóðhagslega arðbærar framkvæmdir eins og tvöföldun Suðurlandsvegar og styttingu hringvegarins áður en komið er að Blönduósi svo eitthvað sé nefnt.
Skattahækkanahugmyndir AGS ganga bara alls ekki upp.Vilja auka tekjuöflun ríkisins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Olíuleki í Mexíkóflóa og Icesave
18.6.2010 | 16:48
Í BBC World Service kl 11:30 í morgun, föstudag 18. júní var viðtal við breskan mann sem hélt uppi rökum um að ábyrgð Breta væri mjög takmörkuð vegna olíulekans í Mexíkóflóann. Fyrirtækið heitir jú BP (sem eitt sinn stóð fyrir British Petrolium) sem átti þennan olíupall sem sprakk. Obama forseti vill að BP borgi himinháar bætur. Hann hefur þó aldrei sagt að breska þjóðin ætti að borga bæturnar.
Þessi viðmælandi BBC í morgun vildi meina að ábyrgð Breta og BP væri takmörkuð þar sem olíuvinnslan hefði verið undir eftirliti bandarískra eftirlitsaðila og fleira nefndi hann eins og að BP hefði borgað skatt til Bandaríkjanna við þessa borun.
Eitthvað fannst mér ég hefði heyrt þessi rök hans áður. Jú, þetta voru einmitt rökin sem Íslendingar hafa verið með vegna Icesave sem Bretar heimta að Íslenska þjóðin borgi upp í topp. Hmm...
Eining ESB í Icesave-deilunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Til hvers eru gæðastaðlar?
16.6.2010 | 19:43
Einn vinkill á allt bankahrunið og um þennan dóm sem féll í dag er spurningin um hversu ótrúlega mikið óhæft bankakerfið hefur verið. Dómur dagsins segir bankana hafa veitt hundruða milljarða ólögleg lán.
En, bíðum við. Bankar og bankafyrirtæki höfðu fyrir ca. áratug síðan innleitt með miklum tilkostnaði og mikilli fyrirhöfn alþjóðlega viðurkennda gæðastaðla.
Ef rannsóknaskýrslan er lesin er augljóst að nánast öllu í vinnu bankanna var klúðrað gersamlega. Meðal annars með lögbrotum. Til hvers voru þá teknir upp þessir gæðastaðlar fyrst þetta er afraksturinn? Kann einhver skýringu á því?
Áhrif dómsins að mestu til góðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hvaða rugl er þetta?
17.5.2010 | 13:31
Síðustu misserin hefur þrengst um fjárhag okkar Íslendinga. Margt bendir til að áfram muni halda að þrengjast enn meira um fjárhaginn. Þess vegna kemur verðlagning á ýmsum stöðum mjög á óvart. Það er eins og augljós tengsl milli framboðs og eftirspurnar séu fólki alls ekki ljós.
Ég fór á bíó í gær. Miðinn kostaði kr. 1.150.- Áhorfendur auk mín voru um 10-12 manns í 3-400 manna sal. Hvers vegna er miðaverðið ekki haft helmingi lægra? Þá hefðu áhorfendur örugglega verið miklu fleiri með meiri sölu í sjoppunni í hléi.
Eins er það með Bláa lónið, en þar var ég um daginn. Þar er miðaverðið reiknað út frá föstu verði í evrum og kostaði einn miði kr. 4.150.- Þetta er brjálað verð! Í ofanálag fyrir rekstur Bláa lónsins hefur útlenskum gestum örugglega fækkað mikið síðustu vikur vegna gossins í Eyjafjallajökli.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mitt land - mín þjóð
15.5.2010 | 15:29
Hef undanfarna viku verið í vinnuferð þar sem ég hef farið um allan vesturhluta landsins, þ.e. allt Snæfellsnes, alla Vestfirði og Norðvesturland allt að Hofsósi. Allir þéttbýlisstaðir á þessu svæði voru heimsóttir, sá fámennasti var Reykhólar (sem er syðst á Vestfjörðum) og sá fjölmennasti var Ísafjörður. Þetta vikulanga ferðalag hefur í einu orði sagt verið stórkostlegt. Ég, borgarbarnið, hef svo sem farið áður til flestra þessara staða en það eykur ánægju mína að fara svona ferð hugsandi að þetta sé mitt land og að þar búi mín þjóð. Þetta get ég sagt með sama rétti og sérhver hinna 320 þúsund Íslendinganna. Þetta er okkar land okkar þjóð. Alls staðar voru móttökur hlýjar. Fólk var hvarvetna jákvætt og glaðlynt.
Nokkur orð um Vestfirði: Fegurð Vestfjarða er mikil. Sagt er að vegakerfi þeirra sé ekki gott og get ég vottað um það. Vegurinn yfir Dynjandi og Hrafnseyrarheiði er sjálfsagt einhver sá versti á landinu. Vegalengdir á Vestfjörðum eru gríðarmiklar. Svo miklar að eftir að hafa ekið stóra Vestfjarðahringinn þá finnst manni vegalengdin milli Reykjavíkur og Kirkjubæjarklausturs vera bara smá spotti. Ný glæsileg brú yfir Mjóafjörð er þó mikil bót fyrir Vestfirðinga.
Nokkur orð um gististaði: Gisti m.a. á Hótel Bíldudal sem er mjög ódýrt hótel sem er í gömlu húsi. Gef ekki mikið fyrir það. Gisti á Hótel Ísafirði (http://www.hotelisafjordur.is/) en það er fyrsta flokks hótel. Á hótelinu er veitingastaðurinn Við Pollinn og þar borðaði ég nýveidda hnýsu og drakk með rauðvínsglas. Á meðan ég snæddi þennan rétt gat ég horft út á pollinn. Þvílík alsæla get ég sagt ykkur. Þau sem þjónustuðu gesti á hótelinu þetta kvöld voru þau Arndís í afgreiðslunni og Smári sem bar fram þennan veislumat. Vona að ég muni nöfn þeirra rétt.
Já, það er ekki bara fegurð landsins sem veitir manni ánægju heldur líka að kynnast góðu starfi eins og hjá þeim á Hótel Ísafirði. Loks gisti ég á Gauksmýri í Vestur-Húnavatnssýslu. Á umliðnum árum hef ég gist á þónokkrum bændagistingum víðs vegar um landið. Íslensk bændagisting er alltaf snyrtileg og alls staðar leggur fólk sig fram við að veita manni góða gistingu. Mitt mat er þó að gistingin á Gauksmýri beri af. Sjá http://www.gauksmyri.is/. Bændur á Gauksmýri eru hjónin Jóhann og Sigríður og reka þau hestamiðstöð á bænum. Snyrtimennska er mjög mikil og allur aðbúnaður og þjónusta fyrir gesti er 100%. Verðið er mjög sanngjarnt. Gauksmýri er umhverfisvottaður staður. Yfir sumartímann er þarna boðið upp á frábæran grillaðan kvöldmat.
Þeir staðir sem ég heimsótti í þessari vinnuferð minni sem ég hef aldrei heimsótt áður voru Reykhólar, Súgandi og Bolungarvík. Ferðin til Súganda var hálfgerð pílagrímaferð fyrir mig. Ég kynntist nefnilega stúlku frá Súganda fyrir bráðum tuttugu árum síðan. Móðir þessarar stúlku var kunn í sinni sveit fyrir að semja og syngja lög um sveitina sína og fólkið. Það sem ég fékk að heyra af því fannst mér nokkuð tregafullt en fallegt. Þessa móður, sem heitir Inga, hef ég reyndar aldrei hitt, en ég samdi sjálfur kvæði um dóttur hennar sem ég kynntist í ofur-stuttan tíma. Hér eru til gamans nokkur erindi úr því kvæði:
Kann dimmu í dagsljós að breyta,
og dásamlegt er hennar tal.
Hún alltaf kann orðum að beita,
ó, ef ætti ég núna það val.
Er hún sýnir mér brosið sitt bjarta
þá bráðnar mitt sækalda hjarta.
Hún ber ilman angandi rósa,
já, eitthvað hún hefur við sig.
Og vel má hún kratana kjósa,
það kemur ekki mál við mig.
En hver getur lifað með ljóni?
Leynast þeir menn hér á Fróni?
Bestan hún telur sinn bróður
og bjarma af föðurnum sér.
Ann líka mjög sinni móður
og metur hvað heppin hún er.
Þau minnast við leik sinna laga
ljúfsárra horfinna daga.
það titrar hvert blóm inn um fjörð.
Fólkið minnist ei fegurri kvæða,
tárin falla á kyrrláta jörð.
Á fjörðunum fáir þess njóta
að finna þar rós milli grjóta.
Ég rifjaði þetta kvæði upp í huganum þegar ég fyrir helgi ók Súgandafjörð fyrsta sinni og fannst mér hafa tekist nokkuð vel til. Súgandi, eða Suðureyri eins og bærinn heitir víst, finnst mér heldur vera að drabbast niður. Það finnst mér miður því nú eru komnar þarna góðar samgöngur með Vestfjarðagöngunum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frábær landkynning í Nightly News á NBC í kvöld
22.4.2010 | 23:35
Það var frábær landkynning í Nightly News á NBC í kvöld. Þessi fréttatími er sá vinsælasti í Bandaríkjunum svo þessi landkynning er í raun ómetanleg.
www.msnbc.msn.com/id/3032619/ns/nightly_news/#36723723
Annars hafa fréttir af Íslandi og eldgosinu verið gríðarlega miklar í erlendum fjölmiðlum síðustu vikuna. Ólafur Ragnar hefur oft verið í viðtölum en líka fleiri Íslendingar eins og Palli og kona hans Hanna Lára, bændur á Þorvaldseyri, sem stóðu sig ótrúlega vel í viðtali á BBC fyrir tveimur dögum síðan
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ekki bara tap
20.4.2010 | 17:29
Vissulega tapa margir ferðaþjónustuaðilar og flugfélög á þessu öskutímabili þegar flug er bannað. En þetta er ekki bara tap. Það eru líka margir aðilar sem græða feitt á þessu flugbanni.
Ferjur, lestir, rútur og jafnvel leigubílar eru í miklum uppgripum núna. Þá gefst flugfélögum tækifæri til viðhalds flugvéla sem annars væru í stöðugri notkun. Flug þarf mikið eldsneyti sem núna sparast með samsvarandi minnkun á mengun.
Ekkert flugbann á fiðrildi
Nágrannar flugvalla, eins og þeir sem búa fast upp við flugvelli, t.d. á Englandi, heyra nú allt í einu í spörfuglum og öðrum dýrum sem annars heyrist ekki í fyrir flugvélahávaða.
Hafa tapað 34 milljörðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)