Færsluflokkur: Fjármál

Hvernig minnka hærri stýrivextir verðbólguþrýsting?

Verðbólga þessa dagana stafar fyrst og fremst af hærra innflutningsverði svo sem á eldsneyti og öðrum nauðsynjavörum sem við neyðumst til að flytja inn. Sérfræðingar Seðlabankans virðast telja að hærri stýrivextir þeirra vinni gegn verðbólguþrýstingnum.

Gott væri ef einhver þessara sérfræðinga lýsti því nákvæmlega hvernig hærri stýrivextir fari að því að minnka verðbólguþrýstinginn og hvernig stýrivextir hafi reynst Íslendingum til að stýra verðbólgu síðustu fjögur ár eða svo.


mbl.is Auknar líkur á vaxtahækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vextir eru eitt en verðtrygging annað

Það er auðvitað ágætt að Landsbankinn ætli að hjálpa þeim sem fengu lánað hjá bankanum. 20% af vöxtum er nokkur upphæð en það eru verðbæturnar sem hins vegar hafa farið með lánin upp úr öllu valdi. Ef ég skil þessa frétt rétt þá ætlar bankinn ekki að gefa neinn afslátt af verðbótunum.

Þeir sem tóku íbúðlán hjá bönkunum, t.d. 2004-2007, og höfðu einsett sér að fara varlega í fjármálum og fara eins hóflega í einu og öllu og mögulegt var, t.d. með því að nurla saman öllu því sem þeir mögulega áttu og gátu sett upp í kaupverð íbúðarinnar til að lánið þyrfti ekki að vera svo hátt... það eru þeir sem hvað verst hafa farið út úr hruninu.

Þeir þurfa að horfa á lánin sín fara í allt að 110% verðmats íbúðarinnar án þess að þeir fái neitt afskrifað. Þá hugsa þeir sér að hugsanlega hefðu þeir átt að leyfa sér smá óhóf þegar þeir fjárfestu í íbúðinni á sínum tíma, kannski eina utanlandsferð þó ekki annað.


mbl.is Endurgreiða hluta af vöxtum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þetta skip getur aldrei sokkið!"

Úps! Á ekki skipstjóri Titanic að hafa sagt rétt áður en það sökk; "Þetta skip getur aldrei sokkið!"

Ég hef verið nokkuð viss um styrk Evrunnar en þessi stuðningsyfirlýsing Strauss-Kahn vekur mér nokkurn ugg.


mbl.is Segir evruna í góðu lagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óheiðarlegur „skilaréttur“ bankanna

Fyrir viku síðan keypti ég ensk sterlingspund sem ég hugðist nota í helgarferð til Lundúna sem ég ætlaði í nú um helgina. Þennan gjaldeyri seldi bankinn mér á svokölluðu seðlagengi. Gott og vel. Ég keypti svo sem engin ósköp enda átti þessi helgarferð aðeins að vera til ánægju en ekki sérstaklega til innkaupa. 

Ekkert varð úr ferðinni af skiljanlegum ástæðum. Því vildi ég skila bankanum aftur gjaldeyrinum, sem var ósnertur og eins og ég hafði fengið hann afhentan við kaup í bankanum. En, nei, nú sagði bankinn að hann myndi kaupa gjaldeyrinn til baka á svokölluðu kaup-seðlagengi sem er rúmum fjórum prósentum lægra en sölu-seðlagengið sem ég hafði keypt seðlana á. Þó að það komi ekki þessari umkvörtun minni við, þá hefur pundið lækkað um tæpt prósent í ofanálag á þessari viku frá því ég keypti gjaldeyrinn.

Allar verslanir sem stunda heiðarleg viðskipti eru með skilarétt þar sem viðskiptavinum býðst að skila keyptum vörum ef ekki reynist mögulegt að nýta þá, t.d. fötum ef þau passa ekki. Það fær maður endurgreitt með inneignarnótu upp á nákvæmlega sömu krónutölu og keypt hafði verið fyrir. En hjá bönkunum er maður rændur um á fimmta þúsund fyrir hverjar 100.000 sem keyptur hafði verið gjaldeyrir fyrir sem skila á.

 

Þetta finnst mér ekki sanngjarnt.


Frábær frammistaða hjá hinu opinbera

Ég er með svokallaða greiðsluþjónustu í bankanum mínum og fer því sjaldan inn á netbankann minn. Fór þó þar inn í morgun og sá mér til nokkurrar undrunar ógreidda skuld við ríkið, þ.e. Ríkissjóðstekjur, innheimta upp á heilar tuttugu og fjórar krónur. Hugsanlega er þetta ógreiddur skattur. Gjalddagi fyrir þessar 24 krónur var þann 7. janúar sl., eða fyrir 15 dögum síðan.

Skjaldarmerki

Ég dreif mig því í að greiða þessa upphæð en þá var komin rosaleg upphæð ofan á þessar 24 krónur sem heitir Vextir og kostnaður upp á 4.500 krónur! Upphæðin hafði því nærri tvöhundruðfaldast!

Ég þarf að skammast í bankanum mínum vegna þessa reiknings og væntanlega mun ég kanna það hjá ríkinu í hverju þessi mikli kostnaður liggur. Ekki hefur verið gerð nein innheimta í það minnsta.

Svona trakteringar eru auðvitað leiðinlegar fyrir þá sem vilja alltaf vera skilvísir en samt legg ég til að sá aðili hjá hinu opinbera sem setur svona reikning á þá sem ekki borga á gjalddaga fái fálkaorðuna fyrir góð störf í þágu hins opinbera.

- - -

Viðbót 25. janúar:

Í morgun talaði ég við starfsmenn hjá innheimtu ríkissjóðs og fékk skýringu á ofangreindu máli. 24 krónurnar eru þriðja og síðasta greiðsla útvarpsgjaldsins. 4.500 krónurnar er vegna endurútreiknings ríkisskattsjóra á vaxtabótum. Það að sú upphæð skyldi birtast skyndilega þegar ég greiddi 24 krónurnar og það án nokkurra skýringa sögðu þeir vera klaufaskap hjá tölvukerfi RB. En hvað um það, málið er þá loks orðið ljóst og allir sáttir.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband