Nóg af bláberjum við Suðurstrandarveg

Síðustu helgi fór fjölskyldan Krísuvíkuleiðina austur fyrir fjall. Mjög skemmtileg leið og veðrið var frábært. Stoppað var við Kleifarvatn og nesti borðað. Reyndar mátti finna ber þar svo börnin vildu helst ekki yfirgefa svæðið.

Áfram var haldið suðurstrandarveginn. Hafin er vegagerð þarna og gamli vegurinn því óskemmtilegur - eitt þvottabretti! Gaman verður að fara þessa leið þegar nýi vegurinn verður tilbúinn, hvenær sem þar svo sem verður.

Bláber 1. ágúst

Börnin fengu að fara í berjamó nokkrum kílómetrum austan við Krísuvík og þar var krökkt af berjum. Bæði krækiberjum og bláberjum.

Þarna var lítil umferð en það er virkilega þess virði að fara þessa fallegu leið.


mbl.is Hvar eru bláberin?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland skortir sárlega leiðtoga sem getur talað kjark og von í þjóðina

Mikið væri gott ef þjóðin ætti leiðtoga sem gæti talað kjark og trú á framtíðina í hana. Slíkur leiðtogi virðist ekki vera á Alþingi enda eru slíkir fáir til.

Helst dettur mér í hug sálfræðingurinn Jóhann Ingi sem þekkir þá hluti mjög vel hvernig eigi að blása fólki kapp í brjóst og trú á árangur.

Jóhann Ingi er ekki í ríkisstjórn eða á Alþingi og heldur ekki á Bessastöðum svo kannski eru okkur allar bjargir bannaðar.

Það er annars vel skiljanlegt þegar fólk yfirgefur landið eins og stjórn allra hluta hefur verið hjá okkur síðustu misserin. Hins vegar er það hörmulegt fyrir okkur sem eftir sitjum í skuldasúpunni og gerir okkur erfiðara fyrir.


mbl.is Mesta hættan fólksflótti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jacksons minnst

Kannski er það eðlilegt að fólkið sem mesta hefur hæfileikana skuli vera nítt niður af öðru fólki – eða hvað? Sjálfsagt hafa sálfræðingar eitthvað nafn yfir þetta. Michael Jackson hafði ótvírætt gríðarlega hæfileika þó að hann væri alls ekki eins og fólk flest er. Á bloggheimum má sjá hvar Dolly Parton (sem einnig hefur ómælda hæfileika) minnist Jacksons. Í athugasemdum eftir þá vinarkveðju eru ljótar athugasemdir um þau bæði:

http://www.youtube.com/watch?v=XqaV1PnDJBU

Á Íslandi á þetta athæfi sér einnig stað. Þá er ég t.d. að hugsa um Bubba Morthens sem er afburða snillingur í tónlistinni. Þegar einhver frétt er um Bubba á netinu þá koma ómerkilegustu athugasemdir um hann. Reyndar þá oftast frá nafnlausum aðilum.

Hér er upptaka frá æfingu Jacksons, tveimur dögum fyrir andlát hans, þar sem hann var að æfa fyrir tónleikahald sem hann var að fara í til Bretlands:

http://www.youtube.com/watch?v=YM3hzALnHX8


Bing - Ný leitarsíða frá Microsoft

Þann 1. júní sl. kynnti Microsoft nýja leitarsíðu sem þeir segja að geti keppt við hina vinsælu Google leitarsíðu. Þessari nýju leitarsíðu hafa þeir gefið nafnið Bing og hafa gagnrýnendur tekið henni vel.

Bing.com

Gagnrýnendur hafa sagt þessa leitarsíðu oft gefa markvissari svör en t.d. Google gerir. Þannig gefi Bing betri svör við flóknari spurningum. Eins og Bing skilji spurninguna betur. En munur getur líka verið á einfaldari spurningum. Ef Google fær t.d. spurningu um hver var 23. forseti Bandaríkjanna þá kemur svar upp á um 8 milljón síður! Við slíkri spurningu er þó aðeins eitt svar og þá væntanlega óþarfi að benda manni á 8 milljón síður til aflestrar.

Hér er hægt að slá inn leitarstreng þar sem bæði Bing og Google leitarsíðurnar svara hvor fyrir sig og er þá hægt að leggja mat á niðurstöðurnar.

Slóðin er þá eftirfarandi;
http://www.blackdog.ie/google-bing/
og þá er hægt að slá inn leitarstreng sem bæði Google og Bing svara. Prófið t.d. að slá inn nöfn ykkar og sjáið hvaða niðurstöður birtast.

Ef þið viljið síðan gera Bing að sjálfgefinni leitarsíðu, hvort sem þið eruð með Internet Explorer 7 eða 8, þá getið þið farið á þessa síðu;
http://www.ieaddons.com/en/createsearch.aspx
og sett þessa línu inn í URL: línuna: http://www.bing.com/search?q=TEST
og sett nafnið Bing inn í Name: línuna. Ath. að haka þá við að síðan verði stjálfgefin.

Þessa dagana er Microsoft að gefa út fleiri áhugaverða hluti. Þannig kynna þeir ókeypis veiruvarnarforrit væntanlega á næstunni. Þetta er kannski heldur seint hjá þeim því veirusmit eru nánast hætt að gerast á PC tölvum.

Þá verður stór útgáfudagur hjá Microsoft þann 22. október þegar þeir gefa út tvö ný stýrikerfi; Windows 7 og þjóninn Windows Server 2008 R2. Hvorutveggja má núna niðurhala frítt frá Microsoft í svokallaðri RC útgáfu. Þessi fría RC útgáfa (Release Candidate) verður nothæf fram á næsta sumar. Windows Server 2008 R2 er aðeins 64 bita en Windows 7 er bæði 32 bita og 64 bita.


Loksins eitthvað jákvætt til að segja frá

Á föstudaginn voru skólaslit í Lindaskóla í Kópavogi og við það tækifæri var haldin vorhátíð skólans auk leikskólanna tveggja í Lindahverfi. Vorhátíðin tókst mjög vel og mátti sjá mikla gleði af hverju andliti.

Við skólaslit Lindaskóla 5. júní 2009

Eiginkona mín var í undirbúningsnefnd þessarar hátíðar en komst ekki á síðasta undirbúningfundinn á fimmtudaginn vegna anna annarsstaðar og hljóp ég þá í skarðið fyrir hana. Hún var búin að segja mér að góð stjórn væri á undirbúningnum og reyndist það vera hverju orði sannara. Sú sem stýrði undirbúningsnefndinni heitir Gígja og kom frá foreldrafélagi leikskólans Núps. Hún hefur ótvíræða leiðtogahæfileika svo maður hefur varla séð annað eins. Hún hafði skýra mynd af verkefninu og mikla skipulagshæfileika. Var hvetjandi og úrræðagóð. Svo veitti hún hrós þegar við átti þannig að öll verk sem sinna þurfti voru unnin af gleði og ánægju.

Leikskólabörnin að syngja á vorhátíðinni 5. júní 2009

Einnig langar mig hér að minnast á húsvörð Lindaskóla sem heitir Jóhannes. Það var sérstaklega ánægjulegt að leita til hans um lausn nokkurra þátta sem til féllu. Á fimmtudagskvöldið var útskriftarhátíð 10. bekkjar sem Jóhannes sá um að hluta. Þrátt fyrir að hann væri önnum kafinn þetta kvöld þá tók hann óskum okkar í undirbúningsnefndinni af mikilli hjálpsemi og ánægju. Ég veitti því athygli að nokkrir 10. bekkingar föðmuðu Jóhannes að sér að skilnaði og verð ég að segja að öðruvísi voru húsverðir þeirra grunnskóla sem ég gekk í. Þeir voru frekar svona úrillir feitir karlar með þykkar lyklakyppur sem áttu lítil samskipti við börnin önnur en til að skamma þau. Þegar húsverðir eru eins og Jóhannes, sem verða vinir barnanna, þá er það örugglega til þess að öll umgengni þeirra verður mjög góð.


Hættulegasta starf í heimi!

Þetta hlýtur að vera hættulegasta starf í heimi:
Worlds Most Craziest and Dangerous Job - More amazing video clips are a click away

Þjóðartekjur hrynja - mun þá meðalævin styttast?

Efnahagshrunið á eftir að hafa mikil áhrif á þjóðina til langs tíma. Sumir benda á að þetta geti orðið til góðs og að við getum byggt upp heilbrigðara samfélag á rústum hins hrunda.

Eitt sem vert er að hugsa um er að hugsanlega mun hrunið stytta meðalævi okkar, sjá:

http://www.flixxy.com/worldwide-life-expectancy-income-changes.htm


Stjórnin vill ekki skilja málið!

Í morgun var félagsmálaráðherra í viðtali á Bylgjunni. Þar sagði hún m.a. að tillögur talsmanns neytenda hefði hún séð á fimmtudaginn og kíkt á þær en ekki skilið. "Síðan hefur náttúrulega ekki verið neinn vinnudagur". Eins gott að hún vinnur ekki í Slökkviliðinu!

Hjólað niður Alpana (með Jónasi Hallgrímssyni).

Jónasi Hallgrímssyni var umhugað um sparnað og samdi hann þessa stöku:

Eg er kominn upp á það
- allra þakka verðast -
að sitja kyrr á sama stað,
og samt að vera að ferðast.

Hér geta lesendur fylgt með í hjólreiðatúr niður Alpana.

 


Kastljós kvöldsins og Paul Harvey

Í Kastljósi kvöldsins var innlit til heimilisfólksins á Hólum á Rangárvöllum. Sannarlega yndislega fallegur þáttur nú á tímum. Ég sem gamall nágranni þessa fólks veit að þau búa í einhverri fallegustu sveit landsins.

Lengi hafa þau lifað án þess að setja sig inn í neyslukapphlaup þjóðarinnar, enda eru þau heldur einangruð þarna í Heklusveitinni. Þegar dóttirin á bænum fékk spurninguna hvort hún ætlaði ekki í sumarfrí þá var eins og hún skyldi ekki spurninguna.

Það minnti mig á það sem bandaríski útvarpsmaðurinn Paul Harvey, sem andaðist um daginn níræður að aldri, sagði um vinnu sína allt til dauðadags. Hann sagði að þegar maður starfi við það sem maður hafi yndi af þá er það ekki vinna! http://www.abcrn.com/harvey/

Paul Harvey var daglegur gestur á Kanaútvarpinu í gamla daga, reyndar eins og útvarpsfréttastöðva um öll Bandaríkin. Fréttaþættir hans voru mjög áheyrilegir enda gat hann flutt fréttir á svo áheyrilegan og jákvæðan hátt.

Fréttaþættir hans skyldu mann eftir með meiri trú á mannkynið og framtíðina. Hans er sárt saknað af hlustendum sínum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband