Mikil gæfa er hitaveitan!

Frændi minn sem var við nám í Aberdeen í Skotlandi um 1970 hefur sagt mér sögur af vetrum sínum þar. Stundum var svo kalt í húsinu sem hann bjó í, að hann hafði það fyrir sið að fara úr strætisvagninum einni stoppistöð áður hann var kominn á leiðarenda svo honum gæfist færi á að skokka sér til hita áður en hann var kominn heim.

Nú heyrir maður sögur af gömlu fólki í Evrópu sem eyðir deginum mikið til í strætisvögnum til að halda hita á sér þar sem það hefur ekki ráð á að kynda heimili sín. Mikið er okkar lán að eiga heitt vatn og hitaveitu.

Þessu tengt: Sigurjón og hinir Landsbankaræningjarnir rændu víst samtök eldri borgara með Icesave þarna úti og ég efast um að það fólk fái peningana sína bætta.


"Þetta skip getur aldrei sokkið!"

Úps! Á ekki skipstjóri Titanic að hafa sagt rétt áður en það sökk; "Þetta skip getur aldrei sokkið!"

Ég hef verið nokkuð viss um styrk Evrunnar en þessi stuðningsyfirlýsing Strauss-Kahn vekur mér nokkurn ugg.


mbl.is Segir evruna í góðu lagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álög

Ef frá er talið er ég missti föður minn níu ára gamall þá tel ég mig hafa lifað mjög gæfusömu lífi. Á frábæra fjölskyldu, eiginkonu og tvö stórkostleg börn.

Á unglingsárum gerðist ég nokkuð hjátrúarfullur. Trúði því að ákveðnir atburðir gætu leitt til góðs og aðrir atburðir á móti til tjóns. Með aldrinum hef ég að mestu gengið af þessari hjátrú. Talan 13 er t.a.m. happatalan mín. Það er auðvitað ákveðin hjátrú að segja þetta.

Nokkrir atburðir hafa verið mér illskiljanlegir. Einu sinni heimsótti ég Þingvelli og fór þar í Valhöll. Daginn eftir kviknaði í Valhöll og hún brann til ösku. Svo var Reykjavíkurborg með opið hús í Höfða og ég fór og skoðaði Höfða fyrsta sinni. Daginn eftir kviknaði í Höfða en sem betur fer tókst slökkviliðinu með snarræði að lágmarka það tjón. Fljótlega eftir opnun Landeyjahafnar skrifaði ég á blogginu að gerð hafnarinnar hefði tekist einstaklega vel. Strax þar á eftir byrjuðu vandræðin og hefur Herjólfi síðan oft verið siglt til Þorlákshafnar. Hmm...

Kannski að við þetta blogg breytist þessi álög.


Kosning á Stjórnlagaþing

Hef verið að ígrunda hvern skuli kjósa á Stjórnlagaþingið. Ég er frjálshyggjumaður en finnst illa hafi verið farið með frjálshyggjuna síðasta áratuginn á Íslandi. Grundvallarregla í minni bók er að frelsi fylgir ábyrgð. Útrásarvíkingarnir og þeirra lið virtist a.m.k. alls ekki gera sér neina grein fyrir því að frelsinu fylgdi nokkur einasta ábyrgð.

Nú þegar tæp vika er til kjördags þá er ég helst á því að kjósa Jakobínu Ingunni Ólafsdóttur (7319) í fyrsta sætið og Ómar Ragnarsson (9365) í annað. Á eftir að ákveða fleiri á minn lista.

Ég efast um að Jakobína sé nokkuð hrifin af frjálshyggju en ég er ekki í nokkrum vafa um að hún hafi hjartað á réttum stað og vilji þjóð okkar vel. Ég treysti henni.

Ómar er víðsýnn maður og mér hefur lengi þótt hans skoðanir og áherslumál til mikillar fyrirmyndar.

Hafði reyndar haft í hyggju að kjósa Jónas Kristjánsson þar sem ég er svo sammála honum um að gera þjóðfélagið gegnsærra. Jónas hefur hins vegar verið að hrauna ómálefnalega og ósanngjarnt yfir hin góðu Hagsmunasamtök Heimilanna upp á síðkastið. Jónas get ég því alls ekki kosið.

Annað er að mig grunar að á Stjórnlagaþingið verði kosið svo ólíkt fólk sem ekki muni koma sér saman um neina skýra sameiginlega niðurstöðu.


Landið brennur!

Jón Ásgeir, Björgólfur Thor, Sigurjón fyrrum bankastjóri og nokkrir fleiri eru brennuvargarnir sem kveiktu í landinu. Landið hefur staðið í björtu báli síðustu tvö-þrjú ár.

Það furðulega er að ríkisstjórnin gerir ekkert þjóðinni til bjargar. Hún virðist gjörsamlega heyrnarlaus á hjálparbeiðni þjóðarinnar í neyð hennar. Stór hluti millistéttarinnar hefur orðið fyrir óskaplegri eignaupptöku. Þúsundir hafa misst atvinnu. Best menntaða og efnilegasta fólkið flýr landið.

Meðan landið brennur er milljörðum sóað í byggingu tónlistarhúss, aðlögunarferli við ESB og afskriftir hjá sjálfum brennuvörgunum. Ríkisstjórnin hefur enda þurft að stórhækka skatta til að borga alla sóunina. Atvinnuuppbygging er hverfandi. Eina sem ríkisstjórnin gerir er aðeins til að brjóta og eyðileggja. Það verður ekki bætt þegar fólk hefur flúið land eða þegar byggðir hafa lagst af eins og nú stefnir víða í.

Eins og ég hef áður bent á verður nýtt fólk að koma að stjórn landsins til að bjarga því sem bjargað verður. Núverandi stjórn gerir ekki annað en að brjóta og eyðileggja.


mbl.is Fleiri sækja um greiðsluaðlögun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örvænting og ofsareiði

Þegar Alþingi var sett í dag voru þúsundir manna á Austurvelli og augljóst var að örvænting og ofsareiði var ástæðan fyrir komu flestra þeirra þangað. Augljóst segi ég, en ríkisstjórnin og flestir þingmanna er algerlega ólæs á þjóðina og því hafa sjálfsagt flestir þingmanna hugsað mótmælendum þegjandi þörfina.

Einhverra hluta vegna virðist ríkisstjórnin aldrei sjá heildarmyndina. Allt sem hún gerir er bara til að skrúfa niður atvinnulífið og möguleika almennings til að komast af. Og það sem verst er, að hún hún skrúfar niður von, þor og kjark þjóðarinnar til að berjast áfram í þessu.

Það sem vantar er forsætisráðherra sem getur talað við þjóðina og fyllt hana sannfæringu um að hann sé með ráð og vissu um að ráðin gangi upp. Þessi ráð þurfa að vera réttlát og sýna allri þjóðinni jafnræði og sanngirni. Svo mýmörg dæmi um afskriftir hjá auðmönnum sýna þjóðinni alls ekki jafnræði og sanngirni. Hvers vegna er þjóðinni boðið upp á þetta?

 

Getur verið að það sé Samfylkingin sem sé eitrið í stjórninni. Róbert Marshall var í fjölmiðlaviðtali og niðurlægði sig fyrir þjóðinni með yfirgengilegu bulli, sjá; http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/1101104/. Og nú er Björgvin G. Sigurðsson kominn aftur kampakátur inn á þing. Þjóðin á til miklu betra fólk og á svo miklu betra skilið.

Ég er á því að skipta þurfi öllum þingmönnum sem voru á þingi fram að hruni út. Fyrr er einskis góðs að vænta frá Alþingi.

Thriller á Lækjartorgi á Menningarnótt

Á fjórða tímanum í gær tók hópur sig saman og dansaði við lagið Thriller á Lækjartorgi. Þó þarna væri nokkuð hvasst þá heppnaðist þetta vel. Þetta var ekki á dagskrá Menningarnætur heldur var þarna hópur sem hafði dansað þetta áður í afmæli eins úr hópnum og ákvað að vera með þennan gjörning þarna til gamans.


Snúum við blaðinu

Eftir hrunið þarf almenningur að hugsa vandlega hvernig hann eyðir hverri krónu sem hann á. Ríkið hefði mátt gera það líka. Óþolandi er að þurfa að horfa upp á risastóra útgjaldaliði ríkisins (okkar almennings) halda áfram á fullu eins og enn sé árið 2007. Tökum dæmi:

Hátæknisjúkrahúsið Auðvitað er ágætt að fá nýtt sjúkrahús en það liggur bara alls ekki svo mikið á því. Svo er spurning um staðsetninguna. Þetta mætti bíða segi ég. Hugsa dæmið til enda.

Tónlistarhúsið Harpa Þetta hefði átt að stoppa strax í hruninu. Við höfum alls ekki efni á þessu núna. Það eina sem hefði átt að gera var að ganga frá því sem upp var komið við hrunið þannig að það yrði fyrir sem minnstu tjóni þangað til að betur áraði hjá okkur. Ég held að þetta dæmi hafa aldrei verið hugsað til enda af neinu raunsæi.

Samgöngumiðstöðin í Vatnsmýri Þetta rugl er ekki of seint að stöðva og það verður að stöðva það strax.

Nú þarf að snúa við blaðinu. Fara að gera vel það sem við gerum, annað en þessa vitleysu. Auðvitað eru til góð verk sem unnin hafa verið eins og nýja Landeyjahöfnin. Það er gott verk sem strax mun skila ávinningi. Við mættum leggja meira áherslu á viðhaldi á því sem við eigum. Fara strax í þjóðhagslega arðbærar framkvæmdir eins og tvöföldun Suðurlandsvegar og styttingu hringvegarins áður en komið er að Blönduósi svo eitthvað sé nefnt.

Skattahækkanahugmyndir AGS ganga bara alls ekki upp.
mbl.is Vilja auka tekjuöflun ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olíuleki í Mexíkóflóa og Icesave

Í BBC World Service kl 11:30 í morgun, föstudag 18. júní var viðtal við breskan mann sem hélt uppi rökum um að ábyrgð Breta væri mjög takmörkuð vegna olíulekans í Mexíkóflóann. Fyrirtækið heitir jú BP (sem eitt sinn stóð fyrir British Petrolium) sem átti þennan olíupall sem sprakk.  Obama forseti vill að BP borgi himinháar bætur. Hann hefur þó aldrei sagt að breska þjóðin ætti að borga bæturnar.

Þessi viðmælandi BBC í morgun vildi meina að ábyrgð Breta og BP væri takmörkuð þar sem olíuvinnslan hefði verið undir eftirliti bandarískra eftirlitsaðila og fleira nefndi hann eins og að BP hefði borgað skatt til Bandaríkjanna við þessa borun.

Eitthvað fannst mér ég hefði heyrt þessi rök hans áður. Jú, þetta voru einmitt rökin sem Íslendingar hafa verið með vegna Icesave sem Bretar heimta að Íslenska þjóðin borgi upp í topp. Hmm...


mbl.is Eining ESB í Icesave-deilunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hvers eru gæðastaðlar?

Einn vinkill á allt bankahrunið og um þennan dóm sem féll í dag er spurningin um hversu ótrúlega mikið óhæft bankakerfið hefur verið. Dómur dagsins segir bankana hafa veitt hundruða milljarða ólögleg lán.

En, bíðum við. Bankar og bankafyrirtæki höfðu fyrir ca. áratug síðan innleitt með miklum tilkostnaði og mikilli fyrirhöfn alþjóðlega viðurkennda gæðastaðla.

Ef rannsóknaskýrslan er lesin er augljóst að nánast öllu í vinnu bankanna var klúðrað gersamlega. Meðal annars með lögbrotum. Til hvers voru þá teknir upp þessir gæðastaðlar fyrst þetta er afraksturinn? Kann einhver skýringu á því?


mbl.is Áhrif dómsins að mestu til góðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband