Hvaða rugl er þetta?
17.5.2010 | 13:31
Síðustu misserin hefur þrengst um fjárhag okkar Íslendinga. Margt bendir til að áfram muni halda að þrengjast enn meira um fjárhaginn. Þess vegna kemur verðlagning á ýmsum stöðum mjög á óvart. Það er eins og augljós tengsl milli framboðs og eftirspurnar séu fólki alls ekki ljós.
Ég fór á bíó í gær. Miðinn kostaði kr. 1.150.- Áhorfendur auk mín voru um 10-12 manns í 3-400 manna sal. Hvers vegna er miðaverðið ekki haft helmingi lægra? Þá hefðu áhorfendur örugglega verið miklu fleiri með meiri sölu í sjoppunni í hléi.
Eins er það með Bláa lónið, en þar var ég um daginn. Þar er miðaverðið reiknað út frá föstu verði í evrum og kostaði einn miði kr. 4.150.- Þetta er brjálað verð! Í ofanálag fyrir rekstur Bláa lónsins hefur útlenskum gestum örugglega fækkað mikið síðustu vikur vegna gossins í Eyjafjallajökli.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mitt land - mín þjóð
15.5.2010 | 15:29
Hef undanfarna viku verið í vinnuferð þar sem ég hef farið um allan vesturhluta landsins, þ.e. allt Snæfellsnes, alla Vestfirði og Norðvesturland allt að Hofsósi. Allir þéttbýlisstaðir á þessu svæði voru heimsóttir, sá fámennasti var Reykhólar (sem er syðst á Vestfjörðum) og sá fjölmennasti var Ísafjörður. Þetta vikulanga ferðalag hefur í einu orði sagt verið stórkostlegt. Ég, borgarbarnið, hef svo sem farið áður til flestra þessara staða en það eykur ánægju mína að fara svona ferð hugsandi að þetta sé mitt land og að þar búi mín þjóð. Þetta get ég sagt með sama rétti og sérhver hinna 320 þúsund Íslendinganna. Þetta er okkar land okkar þjóð. Alls staðar voru móttökur hlýjar. Fólk var hvarvetna jákvætt og glaðlynt.
Nokkur orð um Vestfirði: Fegurð Vestfjarða er mikil. Sagt er að vegakerfi þeirra sé ekki gott og get ég vottað um það. Vegurinn yfir Dynjandi og Hrafnseyrarheiði er sjálfsagt einhver sá versti á landinu. Vegalengdir á Vestfjörðum eru gríðarmiklar. Svo miklar að eftir að hafa ekið stóra Vestfjarðahringinn þá finnst manni vegalengdin milli Reykjavíkur og Kirkjubæjarklausturs vera bara smá spotti. Ný glæsileg brú yfir Mjóafjörð er þó mikil bót fyrir Vestfirðinga.
Nokkur orð um gististaði: Gisti m.a. á Hótel Bíldudal sem er mjög ódýrt hótel sem er í gömlu húsi. Gef ekki mikið fyrir það. Gisti á Hótel Ísafirði (http://www.hotelisafjordur.is/) en það er fyrsta flokks hótel. Á hótelinu er veitingastaðurinn Við Pollinn og þar borðaði ég nýveidda hnýsu og drakk með rauðvínsglas. Á meðan ég snæddi þennan rétt gat ég horft út á pollinn. Þvílík alsæla get ég sagt ykkur. Þau sem þjónustuðu gesti á hótelinu þetta kvöld voru þau Arndís í afgreiðslunni og Smári sem bar fram þennan veislumat. Vona að ég muni nöfn þeirra rétt.
Já, það er ekki bara fegurð landsins sem veitir manni ánægju heldur líka að kynnast góðu starfi eins og hjá þeim á Hótel Ísafirði. Loks gisti ég á Gauksmýri í Vestur-Húnavatnssýslu. Á umliðnum árum hef ég gist á þónokkrum bændagistingum víðs vegar um landið. Íslensk bændagisting er alltaf snyrtileg og alls staðar leggur fólk sig fram við að veita manni góða gistingu. Mitt mat er þó að gistingin á Gauksmýri beri af. Sjá http://www.gauksmyri.is/. Bændur á Gauksmýri eru hjónin Jóhann og Sigríður og reka þau hestamiðstöð á bænum. Snyrtimennska er mjög mikil og allur aðbúnaður og þjónusta fyrir gesti er 100%. Verðið er mjög sanngjarnt. Gauksmýri er umhverfisvottaður staður. Yfir sumartímann er þarna boðið upp á frábæran grillaðan kvöldmat.
Þeir staðir sem ég heimsótti í þessari vinnuferð minni sem ég hef aldrei heimsótt áður voru Reykhólar, Súgandi og Bolungarvík. Ferðin til Súganda var hálfgerð pílagrímaferð fyrir mig. Ég kynntist nefnilega stúlku frá Súganda fyrir bráðum tuttugu árum síðan. Móðir þessarar stúlku var kunn í sinni sveit fyrir að semja og syngja lög um sveitina sína og fólkið. Það sem ég fékk að heyra af því fannst mér nokkuð tregafullt en fallegt. Þessa móður, sem heitir Inga, hef ég reyndar aldrei hitt, en ég samdi sjálfur kvæði um dóttur hennar sem ég kynntist í ofur-stuttan tíma. Hér eru til gamans nokkur erindi úr því kvæði:
Kann dimmu í dagsljós að breyta,
og dásamlegt er hennar tal.
Hún alltaf kann orðum að beita,
ó, ef ætti ég núna það val.
Er hún sýnir mér brosið sitt bjarta
þá bráðnar mitt sækalda hjarta.
Hún ber ilman angandi rósa,
já, eitthvað hún hefur við sig.
Og vel má hún kratana kjósa,
það kemur ekki mál við mig.
En hver getur lifað með ljóni?
Leynast þeir menn hér á Fróni?
Bestan hún telur sinn bróður
og bjarma af föðurnum sér.
Ann líka mjög sinni móður
og metur hvað heppin hún er.
Þau minnast við leik sinna laga
ljúfsárra horfinna daga.
það titrar hvert blóm inn um fjörð.
Fólkið minnist ei fegurri kvæða,
tárin falla á kyrrláta jörð.
Á fjörðunum fáir þess njóta
að finna þar rós milli grjóta.
Ég rifjaði þetta kvæði upp í huganum þegar ég fyrir helgi ók Súgandafjörð fyrsta sinni og fannst mér hafa tekist nokkuð vel til. Súgandi, eða Suðureyri eins og bærinn heitir víst, finnst mér heldur vera að drabbast niður. Það finnst mér miður því nú eru komnar þarna góðar samgöngur með Vestfjarðagöngunum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frábær landkynning í Nightly News á NBC í kvöld
22.4.2010 | 23:35
Það var frábær landkynning í Nightly News á NBC í kvöld. Þessi fréttatími er sá vinsælasti í Bandaríkjunum svo þessi landkynning er í raun ómetanleg.
www.msnbc.msn.com/id/3032619/ns/nightly_news/#36723723
Annars hafa fréttir af Íslandi og eldgosinu verið gríðarlega miklar í erlendum fjölmiðlum síðustu vikuna. Ólafur Ragnar hefur oft verið í viðtölum en líka fleiri Íslendingar eins og Palli og kona hans Hanna Lára, bændur á Þorvaldseyri, sem stóðu sig ótrúlega vel í viðtali á BBC fyrir tveimur dögum síðan
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ekki bara tap
20.4.2010 | 17:29
Vissulega tapa margir ferðaþjónustuaðilar og flugfélög á þessu öskutímabili þegar flug er bannað. En þetta er ekki bara tap. Það eru líka margir aðilar sem græða feitt á þessu flugbanni.
Ferjur, lestir, rútur og jafnvel leigubílar eru í miklum uppgripum núna. Þá gefst flugfélögum tækifæri til viðhalds flugvéla sem annars væru í stöðugri notkun. Flug þarf mikið eldsneyti sem núna sparast með samsvarandi minnkun á mengun.
Ekkert flugbann á fiðrildi
Nágrannar flugvalla, eins og þeir sem búa fast upp við flugvelli, t.d. á Englandi, heyra nú allt í einu í spörfuglum og öðrum dýrum sem annars heyrist ekki í fyrir flugvélahávaða.
Hafa tapað 34 milljörðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Óheiðarlegur „skilaréttur“ bankanna
19.4.2010 | 17:29
Fyrir viku síðan keypti ég ensk sterlingspund sem ég hugðist nota í helgarferð til Lundúna sem ég ætlaði í nú um helgina. Þennan gjaldeyri seldi bankinn mér á svokölluðu seðlagengi. Gott og vel. Ég keypti svo sem engin ósköp enda átti þessi helgarferð aðeins að vera til ánægju en ekki sérstaklega til innkaupa.
Ekkert varð úr ferðinni af skiljanlegum ástæðum. Því vildi ég skila bankanum aftur gjaldeyrinum, sem var ósnertur og eins og ég hafði fengið hann afhentan við kaup í bankanum. En, nei, nú sagði bankinn að hann myndi kaupa gjaldeyrinn til baka á svokölluðu kaup-seðlagengi sem er rúmum fjórum prósentum lægra en sölu-seðlagengið sem ég hafði keypt seðlana á. Þó að það komi ekki þessari umkvörtun minni við, þá hefur pundið lækkað um tæpt prósent í ofanálag á þessari viku frá því ég keypti gjaldeyrinn.
Allar verslanir sem stunda heiðarleg viðskipti eru með skilarétt þar sem viðskiptavinum býðst að skila keyptum vörum ef ekki reynist mögulegt að nýta þá, t.d. fötum ef þau passa ekki. Það fær maður endurgreitt með inneignarnótu upp á nákvæmlega sömu krónutölu og keypt hafði verið fyrir. En hjá bönkunum er maður rændur um á fimmta þúsund fyrir hverjar 100.000 sem keyptur hafði verið gjaldeyrir fyrir sem skila á.
Þetta finnst mér ekki sanngjarnt.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
VARÚÐ! Jákvætt blogg...
13.4.2010 | 23:58
Margir eru að ausa úr skálum reiði sinnar nú eftir útkomu skýrslu rannsóknarnefndarinnar og sjálfsagt á ég eftir að bætast í þann hóp síðar. En...
Hér langar mig að minnast ánægjulegara stunda úr lífi mínu eða þegar við hjónin ferðuðumst til New York haustið 1998. (Við giftum okkur ári seinna, eða haustið 1999). New York er frábær borg. Þarna sigldum við m.a. hring um Manhattan í ljósaskiptunum. Ekki ónýtt það, get ég sagt ykkur. Það höfðu ekki gefist tímar til ástaleikja vikurnar fyrir New York ferðina og gáfust heldur ekki í einhverjar vikur eftir heimkomuna frá New York. Því vitum við fyrir víst að dóttir okkar kom undir á Park Central Hotel sem er rétt hjá Central Park. Þessi dóttir okkar er því Made in Manhattan og það sem meira er að hún fæddist 3. júlí aðeins nokkrum tímum fyrir þjóðhátíðardag Bandaríkjanna. Það hefði kannski verið of mikið ef hún hefði gert það!
En ástæða þess að ég rifja þetta upp hér er nýtt lag Alicia Keys, Empire State Of Mind sem minnir mig svo sterklega á þessa yndislegu daga í New York;
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Enn mun bensínið hækka, en...
5.4.2010 | 17:43
Bensínið mun trúlega stórhækka í verði fram á sumarið og nú er talað um vegtolla í ofanálag eins og bifreiðaeigendur séu ekki skattlagðir nóg. En þegar setja á vegtolla eftir fáein ár (miðað við nýjustu hugmyndir) þá mætti lækka skattinn á bifreiðaeldsneyti um helming að mínu mati.
Það er tóm vitleysa að láta mann margborga fyrir nýja vegi. Eru göngin undir Hvalfjörð ekki þegar greidd?
Annað varðandi vegtollana. Tollhliðin eiga að vera ómönnuð. Annað er tóm vitleysa. Hugsanlega er þó hægt að verja mönnun tollhliðs við Hvalfjarðargöngin með einhverju öryggishlutverki. En eins og ég segi þá ættu þau að vera ómönnuð. Þannig gæti t.d. verið tollhlið við nýju Héðinsfjarðargöngin.
Olíuverð hækkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt 14.4.2010 kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Reykjavíkurflugvöllur þarf að vera opinn á morgun!
3.4.2010 | 21:58
Ég skil ekki alveg svona vinnubrögð. Sem gamall sveitamaður þá þekki ég það að verk sem þarf að vinna séu unnin. T.d. við burð, í heyskap eða annað sem ekki mátti bíða. Sjálfsagt á það sama við í fleiri atvinnugreinum.
Nú er einstakur atburður að gerast (gosið á Fimmvörðuhálsi) og því verður flugumferð að ganga eðlilega þegar veður til þess gefst. Á morgun er spáð ágætu flugveðri en hvassviðri á mánudag og væntanlega rigningardögum eftir það.
Reykjavíkurflugvöllur þarf því að vera opinn fyrir flugumferð á morgun!
Spara aurinn en kasta krónunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Nafn ákveðið á nýja fjallið á Fimmvörðuhálsi
28.3.2010 | 23:04
Í dag fór ég inn Emstruveg þaðan sem stutt er í loftlínu að nýja fjallinu á Fimmvörðuhálsi. Margar hugmyndir að nafngift að þessu nýja fjalli hef ég heyrt. Garpur, Skjaldborg, Þórðarfjall og fleiri.
Fimmvörðuháls er þjóðlenda og er í umsjón sveitarfélagsins Rangárþings eystra. Eðlilegast væri að heimamenn fengju að ráða þessu nýja örnefni. Ég geri það að tillögu minni að sveitarstjórn Rangárþings eystra komi sér saman um fáein góð nöfn og láti íbúa Rangárþings eystra kjósa um nafnið samhliða kosningu til sveitarstjórnar í vor.
Gosið gæti hafa náð hámarki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
„Tvö til þrjú þúsund hektarar brunnu“
26.3.2010 | 23:55
Búið að ráða niðurlögum eldsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)