Færsluflokkur: Dægurmál

Söngvakeppni sjónvarpsins - fyrsti þáttur góður

Fyrsti þátturinn af söngvakeppni sjónvarpsins var nokkuð góður. Þannig var ég ánægður með að Jóhanna Guðrún skyldi komast áfram, enda lagið sem hún söng mjög gott (a.m.k. í góðum hljómflutningstækjum) og vinnur vel á, svona eins og norska lagið í Eurovision í fyrra gerði.

Jóhanna Guðrún

Lag Valgeirs Skagfjörð fannst mér áberandi síst en ég reiknaði samt með því að Heiða myndi komast áfram en það varð ekki.

Það eftirminnilegasta við þáttinn var þegar Ragnhildur Steinunn kyssti Evu Maríu. Það eru kannski engir aðrir til þess núna fyrst Óskar er farinn...


Stafrænir tónleikar frá Berlín

Á síðasta ári fór ég tvisvar til Berlínar. Fyrst í janúar og síðan aftur í maí. Berlín er stórkostleg borg, en eftir gengishrap krónunnar er orðið tvöfalt dýrara að sækja hana heim.

Nú þegar fyrirséð er að byggingu tónlistarhallarinnar verður ekki lokið á næstu árum þá getur fólk sótt á ódýran og góðan hátt til Berlínar Fílharmoníunnar.

Þeir sem hafa tölvur sínar tengdar góðum hátölurum geta nú fylgst með tónleikum Berlínar Fílharmóníunnar í miklum stafrænum gæðum á tölvum sínum.

http://dch.berliner-philharmoniker.de/#/en/tour/.

Hverjir tónleikar kosta nokkrar evrur.

Þannig verða þeir með Strauss/Beethoven/Carter tónleika undir stjórn Zubin Metha kl 15 (að íslenskum tíma) sunnudaginn 11. janúar.


Um laseraðgerðir á augum

Nú eftir mikið fall krónunnar eru laseraðgerðir á augum hérlendis orðnar vel samkeppnishæfar við nágrannalöndin (a.m.k. á Norðurlöndunum).

Hér langar mig að segja frá þessari aðgerð sem ég fór í 20. febrúar 2001. Ég var með mikla nærsýni (-5 á báðum augum) og smá sjónskekkju. Fyrst fór ég í skoðunartíma á stöðina sem ég hafði valið, Lasersjón (www.lasersjon.is). Það reynast víst ekki allir vera með augu sem hafa gagn af svona laseraðgerðum en mín augu voru það án athugasemda.

92477031223_n

Eftir sjónmælingar þar sem athugað var hve mikil nærsýnin og sjónskekkjan væri þá fékk ég tíma fyrir aðgerðina. Regla er að ekki séu notaðar linsur í einhverja daga fyrir mælinguna svo hún væri alveg rétt. Gott er að hafa sólgleraugu með í þessa aðgerð þar sem augun geta verið viðkvæm fyrir birtu fyrstu klukkutímana eftir aðgerðina.

Fyrir aðgerðina sjálfa, sem tekur ekki nema örfáar mínútur, eru settir dropar í augun sem deyfa þau fyrir laserinn.

Mig hafði langað til að hrópa "Ég sé, ég sé" þegar aðgerðin sjálf var búin en það var ekki hægt, þar sem maður sér allt í móðu fyrst á eftir.

Þessi aðgerð breytir miklu fyrir mann. Engin gleraugu, ekkert vesen lengur. Ég var spurður af kunningjum fyrst á eftir hvort þetta hefði ekki verið sárt en ég svararaði eins og var, að ég hefði ekki fundið fyrir neinu - ekki fyrr en ég þurfti að borga!

Þetta kostaði um 300.000 kr. sem mér þótti nokkuð mikið þá, en áttaði mig þó fljótt á því að þetta margborgaði sig. Mér skilst að verðið hafa ekki breyst á þessum 7-8 árum síðan ég fór í þetta þrátt fyrir verðbólgu.

Ekki er þörf á að taka frí frá vinnu/skóla í meira en einn dag eftir svona aðgerð. Augnlæknirinn lætur mann fá augndropa þar sem augun geta verið nokkuð þurr fyrstu dagana eftir aðgerðina.


Hallelujah

Fyrir tæpum aldarfjórðungi eða árið 1984 gaf Leonard Cohen út plötuna Various Positions. Meðal frábærra laga þeirra plötu er lagið Hallelujah.

 

 cover9_lg

 

Í þættinun X-Factor í Bretlandi sem lauk fyrir þremur vikum sigraði söngkonan Alexandra Burke. Í X-Factor söng Burke lagið Hallelujah af mikilli innlifun.

 

Nú vill svo til að á breska vinsældalistanum, sem gildir jólavikuna, fór Burke beint í fyrsta sætið með Hallelujah. Lagið náði mestu vikusölu lags í þrjú ár eða tæp sexhundruð þús. eintök. Hér má sjá og heyra þetta lag:

 

http://www.youtube.com/watch?v=bsuXbkrA_AQ

 

En ekki nóg með það heldur nær útgáfa Jeff Buckley frá 1994 af laginu öðru sætinu:

 

http://www.youtube.com/watch?v=AratTMGrHaQ

 

Það að sama lagið sé í tveimur efstu sætunum hefur ekki gerst á breska listanum síðan 1957.

Málið er enn merkilegra fyrir þær sakir að Cohen sjálfur kemur inn á listann með upprunalegu útgáfuna í 36. sæti. Cohen hefur aldrei komið þangað lagi áður.

 

http://www.youtube.com/watch?v=rf36v0epfmI

 

Það eru ekki allir svindlarar

Að undanförnu hefur  talsvert verið rætt í bloggheimum um verslunarhætti sem eigendur gjafakorta hafa orðið fyrir hjá verslunum sem farið hafa í þrot og komist aftur af stað með nýjum kennitölum eða einhverju svoleiðis fiffi.

Eftir þessa endurreisn hafa þessi fyrirtæki ekki vilja viðurkenna gjafakort sem þau segja að þeim séu óviðkomandi þar sem þau hafi verið gefin út á nafni verslunarinnar áður en hún fór í þrot.

Þetta er mjög slæmt fyrir orðspor fyrirtækjanna þar sem eigendur slíkra gjafakorta er yfirleitt ungt fólk sem ekki fyrirgefur svona móttökur.

En það sem mig langaði að skrifa hér um er gott dæmi frá í síðustu viku af viðskiptum mínum við annað fyrirtæki sem er Opin kerfi. Ég hafði keypt hjá þeim HP prentara fyrir liðlega ári síðan. Þessi prentari fór fljótlega að haga sér eitthvað undarlega og vildi helst ekki prenta neitt.

Ég hef haft góða reynslu af HP vörum og vildi eiginlega ekki viðurkenna að prentari frá þeim gæti verið bilaður. En nú fyrir jólin bráðvantaði mig að prenta út nokkrar myndir svo ég fór í Opin kerfi með prentarann til viðgerðar.

Þegar ég fór síðan til að sækja prentarann úr viðgerðinni þá var mér sagt að prentarinn hefði verið það illa bilaður að ég fengi nýjan frá þeim í staðinn mér að kostnaðarlausu.

c01041149

Nýi prentarinn er talsvert fullkomnari en sá fyrri og þannig nú með skjá til stýringar, netkort og port fyrir minnislykla.

Hér er mér því óhætt að mæla með viðskiptum við Opin kerfi.


Alls ekki hreindýr á Reykjanes!

Í einhverju blaðinu er verið að bera upp hugmynd um að fá aftur hreindýr á Reykjanes (Landnám Ingólfs). Hreindýr voru þar síðast fyrir um 80 árum.

hreindyr

Þetta má ekki verða. Einu sinni var skógur á Reykjanesi. Það er fyrst á síðustu árum sem Reykjanes fær sæmilegan frið fyrir grasbítum. Þó að hreindýr séu engir sérstakir grasbítar þá fer viðkvæmur gróður ekki vel af þeirra ágangi.

Gróðri tekur svo langtum skemmri tíma að eyða en að fá hann aftur. Líklega mun það taka Reykjanesið heila öld að jafna sig.

Að auki má nefna að venjulegar girðingar halda hreindýrum illa (eins og Austfirðingar þekkja) og þau myndu skapa hættu fyrir Reykjanesbrautina.

Gróður og jarðvegur er mun viðkvæmari á eldfjallasvæðum landsins en t.d. á Austurlandi svo ég endurtek að þetta má ekki verða.


Hvað ef þorskurinn sýkist?

Nógu slæmt er að síldin hafi orðið fyrir þessari sýkingu. Hvað ef þorskurinn fengi þessa eða svipaða sýkingu? Þá yrði algjörlega útséð með að við gætum nokkurn tíma greitt risalánin sem þjóðfélagið er að taka á sig.

Ég veit að maður má ekki vera með neina svartsýni, en gott væri ef ráðamenn gerðu ráð fyrir hugsanlegum áföllum.


mbl.is Afföll vegna sýkingar samsvara heilli vertíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þarf til afsagnar?

Féttir síðustu vikna hafa verið óskaplegar. Hver dæmalaus frétt úr heimi efnahagsmála hefur rekið aðra og virðist sem engin lát ætli að verða á.

Í öðrum löndum hefðu ráðherrar sagt af sér eftir marga þessara atburða sem yfir okkur hafa gengið.

Mér þætti fróðlegt að vita hvaða skilning nokkrir ráðherranna, t.d. Geir Haarde, Björgvin G. Sigurðsson, Árni M. Mathiesen, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hafi á ráðherraábyrgð og eftir hvers konar afglöp/brot/vanhæfni í starfi þeir telji að ráðherrar þurfi að segja af sér.

Ég þykist vita að ráðherrarnir lesi ekki þetta blog, a.m.k. örugglega ekki Björgvin, svo ef einhver sem þekkir þetta fólk les þetta, þá mættu þeir spyrja ráðherrana um þetta efni.

Svipaða spurningu mætti leggja fyrir ýmsa aðra, eins og bankamenn og formenn verkalýðsfélaga og lífeyrissjóða.


Ekki auðvelt að hætta viðskiptum við bankann

Eins og þúsundir annara þá er ég með verðtryggt íbúðalán. Síðasta árið hafa verðbætur hækkað lánið rosalega. Fyrir nokkrum vikum síðan talaði félagsmálaráðherra um að nú væri hægt að flytja lánið frá bankanum til Íbúðalánasjóðs.

Ég spurði þjónustufulltrúa minn í bankanum um þennan flutning en hann sagði að ég gæti ekki ákveðið neitt slíkt. Það væri aðeins bankinn sem gæti ákveðið slíkt og það stæði ekki til.

Í smáa letri íbúðalánasamningsins segir að meðan ég sé bankanum tryggur og sé með launareikning og kort hjá honum þá verði vextir á láninu áfram þeir sem ég gerði samkomulag við þá um, annars yrðu þeir hækkaðir.

Það er undan þessu ákvæði sem ég vildi sleppa og því hélt ég að þarna gæti ég átt þann leik í stöðunni að flytja lánið yfir til Íbúðalánasjóðs. En þetta er því miður ekki hægt.


Þetta fólk vil ég á Alþingi nýs Íslands.

Við þyrftum að kjósa í vor og þá væri óskandi að öllum núverandi þingheimi yrði skipt út. Farið hefur fé betra!

En hverja viljum við sjá á þingi í staðinn? Hér kem ég með fáein nöfn sem ég ber fullt traust til uppbyggingarstarfa á hinu nýja Íslandi.

-          Hanna Birna Kristjánsdóttir

-          Gunnar Axel Axelsson

-          Halla Tómasdóttir

-          Jóhann Ingi Gunnarsson

-          Þór Sigfússon

-          Guðmundur Gunnarsson

-          Margrét Pála Ólafsdóttir

Þetta fólk er allt þjóðþekkt og ég gæti bætt við nokkrum á þennan lista sem er ekki þjóðþekkt en læt það vera nú.

Þetta fólk er allt skynsamt og vel að sér. Hugsanlega hefur það ekki áhuga á þingstarfi en þetta er samt fólk sem ég gæti kosið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband